Skírnir - 01.09.1988, Qupperneq 142
348
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
SKÍRNIR
því að ríkið taki land upp í áveitukostnað. En hér er enn það ljón í
vegi að landið er alltof verðlítið til að borga áveiturnar. Skulda-
byrði Skeiðaáveitunnar var til athugunar 1929-30 í einni nefndinni
til, sem skipuð var Sigurði búnaðarmálastjóra og tveimur mönnum
öðrum. Þeir tvöfalda fasteignamatið til að koma landverði á Skeið-
um upp í 32 kr. á hektara, en það hossar ekki hátt upp í áveitukostn-
aðinn, sem þeir telja 111 kr. á ha.66 Bændur séu því líka yfirleitt
mótfallnir að láta land, enda sé nýbýlastofnun varla tímabær. En
„þá túnin stækka, ræktunin eykst og áveitan kemst í betra lag, er
tími til kominn að skipta jörðunum. Færi þá best á, að það yrði
milli erfingja“.67
Eftir stjórnarskiptin 1927 hafði verið skipuð ný nefnd til að gera
tillögur um nýtingu Flóaáveitunnar, Sigurður búnaðarmálastjóri
með tveimur verkfræðingum. Þeir skiluðu ekki áliti fyrr en 1931,
eftir að búið var að ráðstafa skuldum Skeiðaáveitunnar, og gera
þeir ráð fyrir að Flóaáveitan njóti sömu kjara. En auk þess gefist
Flóamönnum kostur á að greiða áveitukostnaðinn í landi, þannig
að „fyrir hvern ha, sem þeir fá af áveitulandi, láti þeir af hendi 1 ha
af landi, og sé minnst helmingur þess áveituland" og henti að öðru
leyti til nýbýlastofnunar. Auk þess sé hæfilegum spildum til ný-
býla skipt út úr landi þjóð- og kirkjujarða.68
Vegna kreppunnar var þetta nefndarálit óraunhæft. Næstu
áveitunefnd, 1932-33, skipa þeir Jörundur Brynjólfsson, Pétur
Magnússon og Steinn verkfræðingur Steinsen og fjalla um fjármál
Flóaáveitunnar. Þeir telja óhjákvæmilegt að ríkið axli kostnað
áveitunnar að langmestu leyti. En þá er landtökuhugmyndin
skyndilega orðin raunhæf, þegar hlutur landeigenda af áveitu-
kostnaði er kominn vel niður fyrir verðmæti landsins. Nú virðist
nægilegt að landeigandi láti ríkinu eftir einn hektara áveitulands af
hverjum fjórum. „Langæskilegast hefði verið, að allir hefðu getað
greitt [...] á þann hátt, en nokkrar undantekningar munu þó verða
frá því,“ segir nefndin, og ætlar ríkinu að fá með þessum hætti 2000
ha. áveitulands.69
Þingið samþykkti heimildina til að greiða áveituna í landi, og í
þessu hlutfalli, einn hektara af fjórum. Greiðsla í peningum var
hins vegar gerð vægari en nefndin hafði lagt til, þannig að hún tald-
ist hagstæðari en afhending lands, enda vildi þingið að greiðsla í