Skírnir - 01.09.1988, Qupperneq 143
SKÍRNIR
ÁVEITURNAR MIKLU
349
peningum yrði meginreglan. Það hafði áhyggjur af því að miklar
landeignir í Flóanum yrðu fjárhagslegur baggi; „slíkt mundi ekki
borga sig, og gæti þá svo farið, að ríkissjóði yrði betra að losna al-
veg við löndin fyrir ekki neitt, heldur en að bera væntanlegan
kostnað af þeim“.70 Niðurstaðan varð sú, að af 60 býlum var
áveitukostnaður, eða hluti hans, greiddur í landi, og eignaðist ríkið
þannig röskan tíunda hluta áveitunnar í viðbót við hlut ríkis- og.
kirkjujarða,71 og var á kreppuárunum notuð atvinnubótavinna
(,,Síberíuvinnan“) til að búa nokkuð af þessu landi til búskapar.
Nýbýli, byggðahverfi og samvinnubyggðir áttu enn vaxandi
fylgi að fagna fram eftir 5. áratugnum, og löggjafinn gerðist æ fúsari
að styðja slíkt framtak.72 En samt mynduðust aldrei nýbýlin í
Flóanum, sem í rauninni voru frumskilyrði þess að áveitan yrði
fullnýtt. Hvers vegna ekki?
I fyrsta lagi var landbúnaðurinn áfram á undanhaldi gagnvart at-
vinnuvegum þéttbýlisins, og var þá ekki að undra að „sú stefna að
stofna nýbýli í sveitum landsins og við kaupstaði og kauptún, [ætti]
mjög erfitt uppdráttar. Ber margt til þess. Hin síðustu ár hefur
fólkinu fækkað jafnt og þétt í sveitum landsins. [. . .] Framboð á
jörðum er miklu meira en eftirspurnin og árlega leggjast jarðir í
eyði,“ eins og nefnd á vegum Búnaðarþings kemst að orði í febrúar
1945.73
Nýbýli voru raunar stofnuð að nokkru marki, jafnvel talin í
hundruðum á þessu tímabili, en að nokkru er þar um að ræða
endurreisn niðurníddra jarða74 og að nokkru nýbýlastofnun „með
þeim hætti að skipta jörðum, sem eru í byggð; þar er meira við að
styðjast og byrjunarörðugleikarnir ekki eins tilfinnanlegir“.75
Þetta er sem sagt hægfara nýbýlastofnun, aðallega með skiptingu
jarða milli ættingja, eins og Skeiðaáveitunefndin frá 1929 hafði talið
æskilegast. Til slíkrar skiptingar jarða var túnræktin hinn æskilegi
grundvöllur. Með henni voru mjög víða tækifæri til að auka gæði
bújarðar smám saman, uns hún bar tvö býli í stað eins. Með áveit-
unum urðu umbæturnar of miklar og of skyndilega á of fáum jörð-
um til að þær nýttust með slíkri nýbýlamyndun innan fjölskyldu.
Raunar var nokkur viðleitni sýnd til að reisa sjálfstæð nýbýli og
nýbýlahverfi á ríkisins vegum, en það var ekki fyrr en á 5. áratugn-
um, þegar áveiturnar voru orðnar tæknilega úreltar saman borið