Skírnir - 01.09.1988, Page 169
SKÍRNIR
STJÓRNSPEKI LOCKES
375
Það sem Locke segir hér og ítrekar víða annars staðar er að nátt-
úruréttur sé aðeins þær reglur sem skynsemin krefst að menn fylgi
og skynsemina segir hann léttara að skilja en lög hinna ýmsu landa.
Það væri að sönnu óskandi að menn skildu svona vel boð sinnar
eigin skynsemi. En ég held að því miður sé reyndin önnur. Ef
skynsemin gerir alls staðar og alltaf sömu kröfur þá hlýtur að
skorta verulega á að menn skilji hana, því það sem einn telur ský-
lausa kröfu skynseminnar telur annar hreinustu hindurvitni.
Hér erum við líklega komin að veikasta hlekknum í rökfærslu
Lockes. Hann gerir ráð fyrir því að það sé auðséð hverri skynsem-
isveru hvenær ríkisvaldið villist af vegi réttlætisins, vegna þess að
hann telur mönnum vera það vandræðalaust að skilja ákvæði nátt-
úruréttar, eða boð skynseminnar. En séu menn ekki jafn skyggnir
á eigin skynsemi og Locke heldur og villist þeir tíðum á réttu og
röngu, geta þeir þá nokkurn tíma komið sér saman um, eða sannað
svo öllum líki, að ríkisvaldið fari á svig við skynsemina og það rétt-
læti sem hún boðar? Locke gæti kannski reynt að svara svona mót-
báru með því að benda á að um flest þau efni sem máli skipta sé ekki
kostur á neinni fullvissu eða óyggjandi sönnunum. Efinn geti þó
ekki endalaust haldið aftur af fólki á þessu sviði frekar en öðrum.
Þessi vandi er þó stærri en svo að hann verði leystur svona. Meðan
fólk greinir á um hvað er réttlátt og hvað ekki, þá skiptir engu máli
hversu réttlátt ríki er; ef innan þess býr einhver hópur manna sem
ekki fær séð hversu réttlátt það er og telur einsýnt að það sé í raun
langt frá öllu réttlæti, þá getur ekki verið í gildi neinn sáttmáli sem
bindur alla þjóðina. Þeir sem telja ríkið óréttlátt geta ekki sæst á
það án þess að fara á svig við eigin skynsemi og breyta gegn betri
vitund.
Locke gengur að því vísu að hin betri vitund, eða skynsemi, allra
manna sé á einu máli og kenning hans um að náttúruréttur setji lög-
legu valdi skorður segir að þessi skynsemi, siðvit venjulegs fólks,
hafi síðasta orðið um hvar þessar skorður skuli reistar. Með þessu
leggur hann áherslu á að ríkisvaldið sé ekki undanþegið þeim sið-
ferðilegu kröfum sem skynsemi hvers manns gerir og gilda í sam-
skiptum venjulegs fólks. Þessi kenning hvetur fólk til þess að gera
siðferðilegar kröfur til ríkisvaldsins og krafan um að ríkið skuli lúta
þeim lögum sem gilda í samskiptum einstakra manna er kannski