Skírnir - 01.09.1988, Side 176
382
ÞÓR VILHJÁLMSSON
SKÍRNIR
rétt á sanngjarnri meðferð mála sinna fyrir dómi, að meðferðin
skuli oftast vera opinber og að dómstólar skuli vera óháðir og hlut-
lausir.7 Þá má minna á, að dómsmál þurfa að fá skjótar lyktir, -
„justice delayed is justice denied“, að sögn Breta. Reynslan sýnir
að mál, sem eru sótt og varin fyrir dómi, vilja dragast á langinn.
Hugsanlegt er að meðferð þeirra tæki skemmri tíma en nú vill
verða, ef forsendur væru styttar eða engar hafðar. Það hefur einnig
sitt að segja, að forsendur dóma vekja líklega oft á tíðum engan
áhuga hjá aðilum og því síður hjá öðrum. Dómsorðið er mönnum
nóg. Enn má vera, að forsendur dóma, sérstaklega um málsatvik,
geti verið særandi fyrir aðila eða jafnvel aðra vegna umfjöllunar um
einkahagi fólks eða önnur viðkvæm málsefni. Loks er þess að geta,
að stundum er ógerlegt að byggja niðurstöðu á því, sem með sanni
má kalla traustan rökstuðning, eins og vikið verður að síðar.
Það sem nú hefur verið sagt mælir gegn því, að forsendur eigi að
vera eða þurfi að vera í dómum. Onnur rök benda til annarrar
niðurstöðu. Er höfundur þessara lína sammála Hjördísi Hákonar-
dóttur um það, að hin rétta niðurstaða hugleiðinga um þetta álita-
efni sé, að forsendur hljóti að vera í dómum. Er þess þá að geta að
dómar eru oft mikilvægir fyrir aðila og þeir skilja þá betur, ef for-
sendur fylgja. Sá sem tapar máli kann að sætta sig betur við orðinn
hlut, ef niðurstaðan er skýrð í forsendum. Þá létta vel rökstuddir
héraðsdómar aðilum ákvörðun um málskot til Hæstaréttar. Sú
skylda dómara, að setja röksemdir á blað, stuðlar sjálfsagt að vönd-
uðum vinnubrögðum dómstólanna og knýr dómara til að hyggja
að þeim atriðum öllum, sem taka þarf tillit til. Loks er það í al-
mannaþágu, að dómstólar rökstyðji niðurstöður sínar í mikilvæg-
um málum, því að það eykur aðhald og auðveldar eftirlit almenn-
ings með dómstörfunum og er að auki til upplýsingar um, hvað séu
lög í landinu. Má segja, eins og Hjördís Hákonardóttir gerir, að í
réttarríki eigi dómar að vera rökstuddir.
V
Eins og nú var sagt, mælir fleira með því en móti að forsendur séu
í dómum og að í forsendunum sé dómsorðið rökstutt. En hverja á
að hafa í huga, þegar rökin eru sett á blað?