Skírnir - 01.09.1988, Side 177
SKÍRNIR
SKÍRNISMÁL
383
Þess er þá fyrst að geta, að líklega koma oftast fram í dómi atriði,
sem dómarar vita ekki með vissu, hvort aðrir en lögfræðingar ná
tökum á. Lögfræðin er gamalgróin fræðigrein, sem byggir á sér-
stökum hugtökum og viðteknum hugmyndum um það, hvað
sanna þurfi og hvernig, og með hvaða hætti eigi að finna gildandi
rétt. Um atvik er oft erfitt að komast að niðurstöðu, þegar segja má
að sönnunargögnin bendi hvert í sína áttina. Dómur kann þá að
vera byggður á því, hvað er ekki sannað af því, sem annarhvor aðili
ber sönnunarbyrði um. Réttarreglur eru fundnar eftir svokölluð-
um réttarheimildum, m. a. settum lögum, fordæmum í fyrri dóm-
um og venju. Þessum heimildum ber ekki alltaf saman, en sérstök
sjónarmið gilda um val milli þeirra. Við þetta bætist spurningin um
það, hvað eru fullnægjandi röksemdir, eftir að spurningar um atvik
og lagaval hafa fengið svör. Er sennilegt, að þá komi stundum til
sérstæður „juridiskur þankagangur".8 Það er að minnsta kosti
ljóst, að oft má hafa styttri forsendur í dómum, sem ætlaðir eru
lögfræðingum, en vera þarf, ef reynt er að semja dóma þannig, að
Pétur og Páll geti lesið þá aðstoðarlaust sér að fullu gagni.
Þá er þess að minnast, sem fyrr segir, að áhuginn á forsendum
dóma, þ. á m. röksemdum dómara, er vafalaust oft lítill, jafnvel
enginn, og bundinn við aðilana og lögmenn þeirra.
Ofanskráð leiðir til þess, að það ætti oftast að vera nægilegt, jafn-
vel æskilegt, að miða rökfærslu í dómum við það að hún sé skiljan-
leg lögmönnum aðila. Hins vegar er oftast óþarfi að reyna að skrifa
fyrir aðila sjálfa eða almenning. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að
hafa dómasamningu með sérstökum hætti, ef líklegt er, að almenn-
ur áhugi sé á málinu.
VI
Það er rétt hjá Hjördísi Hákonardóttur að rökfærslan í dómum er
oftast stutt og oft of stutt.
Ástæða er til að benda á, að það á sér að minnsta kosti stundum
eðlilegar skýringar, að rökin eru sett fram í fáum orðum. Er þess þá
fyrst að minnast, að dómari á ekki að vinna eins og fræðimaður,
sem veltir öllum hliðum máls fyrir sér og gerir grein fyrir þeim í
skrifuðu máli, heldur eiga röksemdir hans að vera skýring á þeirri
niðurstöðu sem fram kemur í dómsorðinu.9 Stafar þetta af því, að