Skírnir - 01.09.1988, Qupperneq 180
386
ÞÓR VILHJÁLMSSON
SKIRNIR
hugleiðinga um, hvort og hvernig bæta megi stjórnsýsluna í land-
inu með bættum rökstuðningi í stjórnsýsluákvörðunum.
Ymis stjórnvöld (framkvæmdavaldshafar) taka ákvarðanir, sem
að efni og stundum að formi eru skyldar dómum. Þannig segir nú
í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, að úrskurðir á skattkærum
skuli vera rökstuddir. Um ríkisskattanefnd segir, að úrskurðir
hennar skuli vera rökstuddir „þannig að aðilar megi sjá, á hvaða
kæruatriðum og skattheimildum skattstofn eða álagning sé
byggð“.10 Þeir sem fylgst hafa í sumar með undirbúningi ráðhúss-
byggingar í Reykjavík hafa veitt því athygli, að félagsmálaráðu-
neytið hefur úrskurðað kærur í alllöngu máli. Þá hefur það verið í
sviðsljósinu, að skipaður var lektor í félagsvísindadeild Háskólans.
Þar hefur verið sagt frá dómnefndaráliti, sem var rökstutt, og frá
deildarsamþykkt sem var það ekki. I forsetakosningum í sumar
gengu tugþúsundir manna að kjörborðinu og tóku mikilvæga
ákvörðun. Ekki þurfu kjósendur að rökstyðja, hvar þeir settu
krossinn. Ef svo bæri að gera í almennum kosningum, t. d. í þing-
kosningum, yrði það þingmönnum vafalítið til góðrar leiðbeining-
ar í störfum. Erfitt yrði þó að koma slíku við svo sem augljóst er.
Veturinn 1986-87 var lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórn-
sýslulaga.11 Var það samið fyrir ríkisstjórnina af hæstaréttarlög-
mönnunum Eiríki Tómassyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni og
hliðsjón höfð af norrænum lögum. Frumvarpið dagaði uppi, en
ástæða er til að geta þess sem þar sagði um rökstuðning. I kafla um
almennar reglur sagði, að aðili máls gæti krafist rökstuðnings eftir
á, ef ákvörðun stjórnvalds teldist íþyngjandi eða varðaði verulega
hagsmuni. Ekki átti að vera skylt að verða við kröfu um rökstuðn-
ing, ef hann teldist óþarfur. I sérstökum kafla um ráðuneytin sagði,
að þar skyldi kveða upp úrskurði, ef ákvörðun annars stjórnvalds
hefði verið skotið þangað eða um væri að ræða ágreining um rétt
eða skyldu einstakra manna eða lögaðila. I úrskurðum átti að
greina málsefni og niðurstöðu „ásamt rökstuðningi, þar sem meðal
annars skal gerð grein fyrir þeim lagaatriðum, er niðurstaða bygg-
ist á“. I greinargerð sagði m. a.: „Enginn vafi leikur á því, að al-
menn skylda stjórnvalda til þess að rökstyðja ákvarðanir sínar
mundi auka til muna réttaröryggi í stjórnsýslunni og stuðla að betri
vinnubrögðum innan hennar.[...] A móti þessu er ljóst, að vinnu-