Skírnir - 01.09.1988, Side 206
412
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
og þrettándu aldar steypt saman í eina sögu, sem löngu síðar var kölluð
Sturlunga saga. Einnig var bætt inn í söguna nokkrum þáttum, sem frum-
samdir voru á svipuðum tíma. Margt bendir til þess að Þórður Narfason
lögmaður hafi stjórnað samsetningu verksins. Þessar níu sögur hafa ekki
varðveist í sinni upprunalegu gerð, nema Hrafns saga Sveinbjarnarsonar
hin sérstaka og brot úr Þorgils sögu skarða, en henni var þó ekki bætt inn í
Sturlungu fyrr en á seytjándu öld. Ritstjórinn eða safnandinn tók mið af
tímaröð atburðanna en ekki orsakasamhengi þeirra þegar hann steypti
sögunum saman. Ef margar heimildir hans fjölluðu um sömu atburði, tók
hann oftast þá gerð sem nákvæmust var; þegar sögur fjölluðu um atburði
sem gerðust á sama tíma, sagði hann þær til skiptis og hljóp á milli, svo að
hvorug færi fram úr annarri. I fyrsta hluta Sturlungu veldur þessi aðferð
ekki vandkvæðum, en þegar fleiri sögur hafa fjallað um svipaða atburði
verður frásögnin ruglingslegri. Safnandinn reyndi að hafa sem mest með í
sögu sinni og var því stundum um missagnir og endurtekningar að ræða.
Oll skil á milli einstakra sagna og þátta hurfu og Sturlunga saga varð þar
með að einni samfelldri sögu.
Fræðimönnum varð snemma ljóst að Sturlunga saga var samsteypurit,
en Guðbrandur Vigfússon varð fyrstur til að greina söguna í frumeindir
sínar árið 1878. Hann byggði útgáfu sína á handriti Reykjarfjarðarbókar,
annars aðalhandrits Sturlungu og handritum ættuðum frá henni. Rannsókn
hans var ónákvæm og er því gagnger rannsókn á Reykjarfjarðarbók löngu
orðin tímabær. Kálund gaf Sturlungu út árið 1908-11 eftir hinu aðalhand-
riti sögunnar, Króksfjarðarbók, sem talið er geyma upphaflegri gerð sög-
unnar, svo og pappírshandritum ættuðum frá henni. Utgáfa hans þykir enn
undranákvæm. Hann rakti Sturlungu ekki í sundur, heldur fylgdi frásögn
handritsins. Þær útgáfur sem síðar hafa komið uxu ekki upp úr nýjum
textarannsóknum, heldur byggðu á þessum tveimur útgáfum. Þær fylgdu
allar því fordæmi Guðbrandar að greina söguna í upphaflegu sögurnar.
Hin nýja útgáfa Sturlungu, sem hér er til umfjöllunar, er fyrsta útgáfa
sögunnar í tæp áttatíu ár, sem fylgir dæmi Kálunds, og sú fyrsta með nú-
tímastafsetningu. Texti hennar er einnig byggður á undirstöðuútgáfu hans.
En útgáfa á Sturlungu er ekkert áhlaupaverk, vegna þess hve textarann-
sóknir á henni eru skammt á veg komnar. Ný útgáfa bætir litlu við fyrri út-
gáfur, sérstaklega hina greinargóðu útgáfu frá árinu 1946, nema gerðar séu
nákvæmar rannsóknir á handritum sögunnar. Auk fræðilegra vandkvæða
hafa Sturlunga og aðrar samtímasögur tólftu og þrettándu aldar þótt heldur
tyrfnar til skemmtilestrar. Fjöldi persóna er koma þar við sögu svo og flók-
in atburðarás hafa þótt leggja stein í götu lesenda.
II
Utgáfa Svarts á hvítu á Sturlunga sögu er í þremur bindum. Fyrstu tvö
bindin hýsa Sturlungu, auk Árna sögu biskups og Hrafns sögu Sveinbjarn-