Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Blaðsíða 62
harmasálmar þrátt fyrir að þeir séu jafn fyrirferðarmiklar í sálmasafninu og
raun ber vitni.
í þessu sambandi má minna á að hið hebreska heiti sálmanna er tehillim
sem merkir lofsöngvar. Stysti sálmur Saltarans, Sálmur 117, er í raun mjög
dæmigerður lofsöngur eða hymni, að öðru leyti en því hve stuttur hann er.
Sigurbjöm Einarsson biskup hefur lýst hvernig hann minnist húslesturs-
ins sem ungur drengur í baðstofunni í bóndabænum í Meðallandi þar sem
hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu. Húslesturinn hófst jafnan á því að
lesinn var stytsti sálmur Saltarans, þ.e. Davíðssálmur 117 sem hljóðar svo:16
Lofið Drottin, allar þjóðir,
vegsamið hann, allir lýðir,
því að miskunn hans er voldug yfir oss,
og trúfesti Drottins varir að eilífu.
Hallelúja.
Þarna var lagður grunnurinn að kristnu uppeldi þess drengs sem átti
eftir að vaxa úr grasi og verða einhver áhrifamesti boðberi kristinnar trúar
hér á landi á 20. öld. íslensk kristni stendur í mikilli þakkarskuld við þá sem
gerðu sveininn unga í Meðallandi handgenginn Davíðssálmum og ólu hann
upp í kristinni trú og siðum.
í þessum stutta hymna, þ.e. Sálmi 117, sjáum við megineinkenni lof-
söngsins eða hymnans. Hvatt er til lofgjörðar og síðan er ástæða lofgjörðar-
innar tilgreind.
Að syngja bænir
Meðan á undirbúningi þessarar greinar stóð fékk ég óvænta staðfestingu
þess að það er ekki fjarri nútímamanninum að „syngja bænir“ á hættu-
stundu. I sumarleyfi mínu á suðrænum slóðum heyrði ég fréttir BBC sjón-
varpsstöðvarinnar frá London þess efnis að hryðjuverk hefðu verið unnin á
samgöngukerfi Lundúnaborgar. Einn þeirra sem komist hafði lífs af úr til-
ræðinu við King’s Cross brautarstöðina lýsti atburðunum skelfilegu fyrir
sjónvarpsmönnum og sagði að mitt í allri óreiðunni og örvæntingunni hefði
fólk tekið að biðja til Guðs og syngja bænir.
Að syngja bænir er auðvitað ekkert annað en að fara með bænasálma,
trúlega úr Saltaranum og ekki kæmi á óvart þó að það hafi verið 23. sálm-
16 Sigurbjöm Einarsson 2001, s. 15-20.
60