Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Blaðsíða 93
Lokaorð
í Sjödægru glímir Jóhannes úr Kötlum við trúarlegar og tilverufræðilegar
spurningar í ríkari mæli en nokkurri fyrri ljóðabóka sinna. í bókinni gætir
líka enn hinnar félagspólitísku hugsjónabaráttu (etos) sem einkenndi mjög
sumar fyrri bókanna (Hart er í heimi, Sól tér sortna og Sóleyjarkvæði). Þótt
hér sé greint á milli þessarra þriggja sviða, trúar, tilverufræði og pólitíkur,
er ekkert sem bendir til að Jóhannes hafi sjálfur talið þann greinarmun
mikilvægan. Trú hans var pólitísk, pólitík hans var trúarleg og undir for-
merkjum beggja glímdi hann við spumingar um tilveru manns og heims,
ekki síst réttlætið í þeirri tilveru.
Ljóðin í bókinni eru ort í kviku þeirra formtilrauna sem Jóhannes glímdi
við á fimmta áratugi aldarinnar og gera það að verkum að form og inntak
þeirra spila betur saman og mynda oft sannfærandi og heillandi einingu
ólíkt ýmsum eldri ljóðum höfundar þar sem hugsunin, inntakið og boðskap-
urinn bar formið stundum ofurliði. Til þess að skynja þessa einingu forms
og inntaks verður enda að lesa ljóðin sjálf en ekki umfjöllun um þau.
Þann trúarlega þátt sem fram kemur í bókinni ber ekki að skilja sem boð-
skap. Jóhannes predikar ekki í bókinni. Hér er miklu frekar um umþenk-
ingar, íhuganir, játningar eða afhjúpanir að ræða, sumar e.t.v. ómeðvitaðar.
Skáldið opinberar hugarheim sinn í ljóðunum og trú skiptir verulegu máli í
þeim hugarheimi sem þar blasir við. Þá ber þess að geta að Jóhannes er í
sumu tilliti mun nær hefðbundnum kristnum skilningi í Sjödœgru en sumum
fyrri bókum sínum. Kemur þetta einkar skýrt í ljós í Mater dolorosa. Fyrir
því kunna að vera djúpsálarfræðilegar ástæður, þ. e. að í þeirri úrvinnslu á
sorg og trega sem hann fór í gegnum við lát móður sinnar hafi hann horfið
til baka til hins bernska æviskeiðs og þar með þeirrar djúpu nálægðar sem
móðirin miðlaði, sem og þeirrar bernskutrúar sem hún innrætti syninum.
Mögulegt er að skoða annað ljóð bókarinnar í ljósi djúpsálarfræðinnar og
er það Jesús Maríuson. Það er einnig það ljóð bókarinnar sem helst verður
kallað boðandi eða predikandi þar sem það höfðar svo sterkt til lesandans
með áskorun um að endurskoða afstöðu sína til Jesú óháð því hver hún er.
í fyrri athugun minni á kveðskap Jóhannesar úr Kötlum var áhersla lögð
á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti á árunum milli 1930 og
1940 og þau hafi leitt hann frá hefðbundinni kristinni trú. Sú túlkun á sér
langa sögu. í Sjödœgru (sjá Mater dolorosd) virðist Jóhannes sjálfur ekki
deila þeim skilningi heldur hafa litið svo á að þróun sín sem skálds og hugs-
uðar hafi verið samfelld og órofin. Síðan er það annað mál hvor hafí „á réttu
að standa“ skáldið eða túlkendur þess!
91