Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Síða 13
STEFÁN SIGURÐSSON
Staldrað við á Staka-Hjalla
A seinni hluta nítjándu aldar bjó í Höfn í Borgarfirði eystra merkisbónd-
inn Þorsteinn Magnússon, Jónssonar prests Brynjólfssonar. Er Njarð-
víkurætt yngri talin frá Sigurði syni Jóns prests. Kona Þorsteins var
Anna Bjarnadóttir frá Breiðuvík, mesta öðlingskona.
A uppvaxtarárum Onnu heima í Breiðuvík, þegar hún var um eða
innan við tvítugt, bar svo við eitt sinn að áliðnu sumri að hún ásamt
tveim öðrum heimilismönnum þar, ákvað helgarferð upp í Hérað. Var
þetta skömmu fyrir göngur og dag því farið að stytta. Heyskapartíð
hafði verið góð um sumarið og heyskapur því gengið vel svo ástæða
þótti til að létta sér upp fyrir göngurnar. Ekki getur sagan þess á hvaða
bæ, eða bæi, ferðinni var heitið en líkast að það hafi verið í Fram-
Hjaltastaðarþinghá því ákveðið var að fara Sandaskörð. Lagt var á stað
eftir miðjan dag á laugardag og vafalaust miðað við það að komist yrði á
leiðarenda í björtu. Gott veður var um daginn, sólskin og bjart til lands-
ins, en þoka til hafs. Gekk ferðin að óskum frá Breiðuvík til Borgar-
fjarðar og þaðan upp yfir Sandaskörð, en þegar kom niður í Sandadal,
sem liggur að skörðunum héraðsmegin, fylltist hann skyndilega af sót-
svartri þoku. Það er fyrirbæri, sem oft kemur fyrir eftir sólríkan dag á
Héraði, að þokuband leggur inn með austurfjöllum þó þokulaust sé
niður á láglendinu og eins efst til fjalla. Þokan tafði þó ekki fyrir ferða-
fólkinu niður fyrir Bjarglandsá því að sæmilega glöggar götur voru á
þeirri leið og varðaður vegur.
Bjarglandsá á upptök sín á Hraundal, sem liggur til austurs milli
Botnsdalsfjalls og Beinageitarfjalls, en þegar dalnum sleppir þverbeyg-
ir áin til norðurs meðfram Beinageitarfjalli og rennur þvert á leið þeirra
sem koma Sandaskörð frá Borgarfirði. Þar heitir Borgfirðingavað sem
farið er yflr ána, gamalt örnefni frá einokunartímabilinu þegar Borgfirð-
ingar_voru skyldaðir til að sækja verslun sína til Stóru-Breiðuvíkur við
Reyðarfjörð. Var þá farin þessi leið og frá vaðinu fram og niður Hálsa og