Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Síða 24
22
MÚLAÞING
fyrir utan Eldleysu, lokuð af sjó að framan, en að baki ókleifur hamar.
Eiríkur slapp úr þessari prísund eftir nokkurra sólarhringa vist. Herma
sagnir, að Eiríkur og Margrét hafi séð aumur á honum, tekið hann úr
voginum, hlynnt að honum og leyft honum síðan að halda á brott, þó að
það bryti gegn aðgerðum löglegra yfirvalda og kallaði yfir þau reiði
Hermanns.
Þessi saga sýnir, hvaða álit menn hafa haft á innræti og lundarfari
Eldleysuhjónanna. Flest bendir til þess, að þau hafi átt þarna hlut að
máli, þó að það sannaðist aldrei í réttarhöldum. Hitt er annað mál, að
Hermann í Firði er hafður fyrir rangri sök í þjóðsögunni.
Hið sanna í málinu er, að Hermann kærði Eirík Olafsson og kom
honum af sér í vörslu hreppstjórans í Mjóafirði snemma árs 1812.
Hreppstjórinn var Sveinn Sigurðsson á Krossi, vel látinn bóndi, en
óhæfur til að gegna hreppstjórastarfinu á erfiðum tíma sökum heilsu-
brests. Var hann flogaveikur, átti bágt með svefn og mjög veill á taug-
um. Eiríkur reyndist erfiður gæslufangi. Yfirvöld létu Svein sitja uppi
með hann í heilt ár, meðan máli hans var þvælt á milli stofnana í
dómskerfinu, án þess einu sinni að greiða fæðiskostnað hans, hvað þá
önnur útgjöld og fyrirhöfn, sem Sveinn hafði af að geyma hann. Fanga-
vist Eiríks lauk með því, að hann dó í vörslu Sveins réttu ári eftir að hún
hófst. Komust margskonar kviksögur á kreik um endalok hans; meðal
annars var sagt, að hann hefði dáið af næringarskorti og illri meðferð.
Einnig var sagt, að tengdasonur Sveins hefði orðið honum að bana í
reiðikasti. Loks keyrði erfiðleika Sveins um þverbak, þegar sóknar-
presturinn, sr. Salómon Björnsson, og Hermann í Firði, sem var staðar-
haldari kirkjunnar þar, töldu tormerki á, að Eiríkur gæti fengið leg í
kirkjugarði, þar sem hann hefði ekki neytt sakramentis í hálft annað ár.
Er svo að sjá, sem þetta hafí orðið geðheilsu og taugakerfi Sveins alger
ofraun. Varð seinasta óyndisúrræði hans í þessu máli að binda stein við
lík piltsins og sökkva því úti á firðinum.
Þetta uppátæki hreppstjórans varð landfrægt á stuttum tíma og hefur
komist inn í þjóðsögur og annála í mörgum útgáfum, auk þess sem um
það er fjallað í embættisskjölum. All-viðamikil réttarhöld og margvís-
legar rekistefnur spunnust út af því. Lauk þeim þannig, að Sveinn var
dæmdur frá hreppstjórninni og til greiðslu allmikils fjár í sektir og
málskosnað.
Meðal þeirra fáu, sem ekki fengu á sig óorð, heldur bættu orðstír sinn
með því að koma við sögu í þessu óþrifamáli, voru Eiríkur og Margrét á
Eldleysu.