Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Qupperneq 28
26
MULAÞING
hýðingardómum réttvísinnar. Svanhildur var fædd um 1785. Hjóna-
band þeirra Jóns var orðið mjög trosnað þegar hér var komið sögu.
Höfðu þau slitið samvistum, að frumkvæði Svanhildar. Þau áttu þrjú
börn á lífi, en ekkert þeirra var samvistum við þau.
Þann 19. janúar 1817 fæddist og var ,,skírður af ljósmóðurinni, Sól-
rúnu Skúladóttur á Steinsnesi, Jóhannes, óegta barn vinnumannsins
Jóns Jónssonar, óconfirmeraðs, á Grund, og giftrar konu, Svanhildar
Skúladóttur“, segir í kirkjubók Fjarðarsóknar.
Framhjátökur töldust ekki til stórtíðinda á áratugunum um og eftir
1800, að minnsta kosti ekki þegar slíkt henti karla. Hórdómsbrot
kvenna þóttu öllu fréttnæmari, enda mun fátíðari.
Almenningsálitið og afstaða valdstjórnarinnar til sifjamála hafði verið
að þokast í áttina til meira frjálsræðis frá því á ofanverðri 18. öld.
Breytingin átti að nokkru rætur í nýjum viðhorfum, sem urðu til úti í
Evrópu í kjölfar frönsku byltingarinnar, en innlendir þættir komu líka
við sögu, til dæmis mannfellirinn í Móðuharðindunum. Þegar honum
létti stóðu uppi í landinu þrjár konur á móti hverjum tveim karlmönnum.
Hefur íslenskur karlpeningur líklega ekki í annan tíma verið fágætari og
eftirsóttari.
Akvæði Stóradóms, sem hafði síðan 1565 mjólkað konugsfjárhirslu
sektarfé eftir nákvæmri skrá um viðurlög fyrir frændsemi- og mægða-
spjöll, hórdóm og frillulífi, höfðu verið milduð nokkuð, þegar hér var
komið sögu, en voru ekki afnumin að fullu fyrr en 1838. Loks hafði
dregið allmikið úr refsihörku yfirvalda. Valdstjórn Dana hér var naum-
ast nema svipur hjá sjón, eftir að þeir veðjuðu á lakari hestinn í Napó-
leonsstyrjöldunum; má í því sambandi minna á valdatöku Jörundar.
Hungursneyð og hallæri leiddi til þess, að loka varð tukthúsinu í
Reykjavík 1814 og gefa föngunum upp sakir.
Þetta allt og fleira dró úr ótta almennings við refsingar og gerði
lauslætisbrot næsta áhættulítil miðað við það, sem áður hafði verið. Að
þessu athuguðu eru skiljanlegar þær þungu áhyggjur, er sum andleg og
veraldleg yfirvöld höfðu af siðferðisástandinu í landinu. Jón Espólín
segir um 1830:
,,Margt þótti öfuglega fara fram í landi á ýmsum stöðum, þó meiri
væri þekkingin en fyrri, olli það mjög, að lítt var skipt sér víða af
siðferðinu, og þótti fyrirmönnum flestum, þeim er æðstir skyldú, sér
það lítt skylt, og heldur að ganga eftir smámunum, en kirkjuaga engan
tjáði að nefna. Höfðu þá nokkrir prestar fallið í hórdóma... Var því svo
lítið sinnt þó menn héldu við frillur sínar, að einn hafði haldið við eina