Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Page 109
múlaþing
107
eins og alls staðar var siður í þá daga. 28. apríl 1894 voru Bjarni og
Sigfús að flétta reiptögl en tveim dögum áður fór Bjarni út í Lón með
hnykla og hefur sennilega verið ofið úr því bandi.
Heilsufar fólksins var gott og rétt aðeins kom fyrir að þangað bærust
kvef eða innflúensa. Hefur einangrunin áreiðanlega átt þátt í því.
Tóbaksnotkun mun hafa verið talsverð, því Jón, Sigfús og Ragnhild-
ur tóku öll í nefíð en Bjarni reykti pípu. Sótti Hefgi Einarsson oft
sprekaglæður fram í eldhús á kvöldin til að kveikja í pípu Bjarna með.
Ragnhildur hafði oft augnsviða og þrota í hvörmum en tóbaksnotkun
gerði augun rakari svo að sviðinn hvarf. Hún mun hafa óttast blindu í
elli en hélt þó sæmilegri sjón, þótt hún lifði fram um nírætt.
Afengi var lítt um hönd haft í Víðidal. Þó lá það orð á Sigfúsi að hann
hefði neytt þess meðan þau bjuggu á Hvannavöllum. Víst er að þá fór
hann æði oft að heiman og - að því er virðist — án þess að hafa fullkomin
erindi fyrir heimilið. Helgi Einarsson minnist á ein jól, er til þeirra kom
gestur með fjögra potta kút af brennivíni. Sáu þeir Sigfús og gesturinn
um að láta innihald kútholunnar endast í þrjá daga. Ekki fann Helgi
mikil vínkaup í reikningum Sigfúsar í Djúpavogsverslun. En Sigfús var
allra manna glaðastur við vín, sagði þá sögur og söng mikið. Eftir að þau
voru flutt í Bragðavelli, gat hann stundum legið tímum saman með bók
án þess að taka þátt í samræðum fólksins. En þá gátu umskipti orðið
snögg, ef að garði bar gest, sem átti víntár til að hýrga hann með. Það
mun þó ekki oft hafa gerst.
Helgi Einarsson telur að alltaf hafi verið ró og gleði yfir heimilislífinu
í Víðidal. Veturinn 1893 - 1894 læddist þó Amor í Dalinn, þegar Krist-
ín vinnukona þeirra varð ófrísk eftir Sigfús. Settist þá mikill dapur-
leiki að Ragnhildi, hún hætti að sitja í baðstofunni en hélt sig í eldhúsi
með skæri sín og nálar, prjóna og fleira. Þetta jafnaðist þó eftir að
Kristínu hafði verið komið fram í Lón um vorið og ól hún barn sitt þar.
Það var 26. apríl um vorið að Jón fylgdi Kristínu út að Bæ en þar bjó faðir
hennar þá og þessa viku skrifaði Bjarni í dagbókina. Næstu daga voru
þeir Bjarni og Sigfús að flétta reiptögl og að ganga í Leiðartungum og
Tröllakrókum. Barn Kristínar var drengur er hlaut nafnið Júlíus. Hann
ólst að mestu upp að Bæ en bjó síðar að Hraunkoti og fluttist þaðan til
Hafnar í Hornafirði. Helgi telur að Sigfús hafí mjög reynt að bæta fyrir
þetta brot sitt gagnvart Ragnhildi og þess vegna hafí hann fallist á að
flytja með henni í tveggja ára búskap að Veturhúsum í Hamarsdal um
aldamótin. Hún undi illa á Bragðavöllum fyrst í stað og þráði dalalífið.
En þau voru fátæk og vistin daufleg á Veturhúsum. Vorið 1901 fluttu