Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Qupperneq 137
múlaþing
135
Fyrstu tvö árin á Bragðavöllum urðu mikil afföll á fénu vegna bráða-
fárs. Það orð lék á jörðinni síðan á dögum Magnúsar ríka að þar væri
gott sauðland en göngur eru langar og oft erfítt að ná fé úr fjöllum.
Einhverjar kindur úr Lóni og Alftafirði hafa jafnan lent til Víðidals á
sumrin og jafnan þótt góðar til frálags á haustin. Hins vegar hefur
Lónsmönnum og Álftfirðingum ætíð þótt erfítt að ná fé þaðan á haust-
um, slík torleiði sem yfír var að fara til fjársókna, vitandi um þann
veðraham, sem getur ógnað gangnamönnum á þeim árstíma. Svæðið er
víðlent, leitótt og víða bratt með hrikalegum gljúfrum en gróður sums
staðar mikill og tiltölulega kjarngóður og hefur það fé sem gekk í Víði-
dal og Kollumúla borið vitni um sumarhaga sína. En Jökulsá í Lóni og
Víðidalsá bættu ekki úr skák með að ná fé af þessum slóðum, báðar
straumharðar, stórgrýttar og vatnsmiklar í rigningum, vorleysingum og
sumarbráði í Vatnajökli. Vegna staðhátta munu bændur í Lóni og Álfta-
firði lítt eða ekki hafa stólað á að setja á vetur það fé sem gengið hafði í
Víðidal. Nú hafa Lónsmenn byggt göngubrú á Jökulsána og skýh í Nesi
austan ár, svo að mestu erfiðleikarnir eru úr sögunni, hvað því viðvíkur
að ganga svæðið. En bóndinn í Hraunkoti í Lóni hefur rekið fé sitt í
Kollumúla og smalað þar og í Víðidal frá því laust fyrir 1950, eini
ábúandi Stafafellsjarða sem nýtt hefur þessa afrétt. Gerir göngubrúin
og sæluhúsið þetta mögulegt og er smölun þó erfíð og tímafrek.
En ef nefna skal dæmi um vænleika fjár í Víðidal, virðist einsætt að
vitna í bréf, sem Jón Sigfússon skrifaði Helga Einarssyni og hefur hann
tekið tölurnar úr dagbókum sínum frá haustinu 1887: ,,Þetta haust
lóguðum við þremur sauðum. Brúnn var með 70 punda skrokk og 26
pund mör; Hnífill, 71 pund kjöt og 20 pund mör og Kollur 69 punda
skrokk og hálft tuttugasta pund mör. Vænsti sauðurinn sem við lóguð-
um í Víðidal var með 85 punda skrokk og 25 pund mör. Sauðir í Víðidal
reyndust þetta með frá 65 til 78 punda skrokk. Hrút lóguðum við, sem
vigtaði 90 pund skrokkurinn og 26 pund mör. Veturgamlir hrútar skár-
ust oft með 45 til 50 punda skrokk. Kvíaær höfðu oft 50 punda skrokk.“
Sumarið 1897 átti Bjarni Þorsteinsson þrjá sauði er hann slátraði
heima og ætlaði í brúðkaup sitt. Kroppur eins þeirra var 75 pund en
hinna 72 og 73 pund.
Lýkur hér þeim dæmum, sem tiltæk eru um vænsta fé í Víðidal en
loks skal vitnað í Ferðabók Þ. Th. Hann segir: ,,Fé verður hér vænt og
fagurt og kvíaær, sem ég sá, voru óvanalega stórar, ullarfagrar og stór-
hyrndar.“ Mætti margur fjármaðurinn vera stoltur af slíkum vitnis-
burði.