Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Side 162
160
MÚLAÞING
símasamband við Breiðuvík í gegnum Eskifjörð fréttist að þeir væru
ekki komnir heim.
Nú var ekki um annað að ræða en hefja leit að þeim, því þó þeir hefðu
snúið aftur niður til Hellisfjarðar gátu þeir ekki látið vita af sér. Síma-
línan liggur þar um að vísu en var ekki í lagi, og þó að þeir hefðu komist
niður í Viðfjörð, þá var þar sama ástandið með símann. Frá Breiðuvík
töldu menn þar sér ekki fært að fara til leitar vegna veðurs og mann-
fæðar. Varð því niðurstaðan, að þeir Guðgeir Guðjónsson og Steinþór
Þórðarson fóru frá Skuggahlíð út í Neskaupstað, en þó var fyrst haft
samband við formann Slysavarnafélags Norðfjarðar, Reyni Zöega, um
að útvega vélbát til Hellisfjarðar og Viðfjarðar með leitarmenn. Þegar
þeir Guðgeir og Steinþór komu úteftir var búið að útvega bát og menn.
Báturinn var Valurinn, skipstjóri Haukur Olafsson og með honum var
sonur hans. Leitarmenn sem við bættust voru Hilmar Björnsson og
Sveinn Guðmundsson, báðir frá Neskaupstað. Var klukkan orðin nærri
12 þegar lagt var af stað frá Neskaupstað.
Komið var við á Sveinsstöðum, en þar var enginn maður. Var þá farið
til Viðfjarðar, en þar var ekki heldur neinn og ekki sýnilegt að þangað
hefði verið komið það kvöld. Var þá aftur haldið áleiðis til Helhsfjarðar.
Þegar þeir voru komnir norður á fjörðinn gerðu þeir merki með ljósum
við og við — og var þeim reyndar svarað með smáljósi sem bátsverjar
gátu greint og var inni í Miðstykki - brekkunum fyrir sunnan Hellis-
fjarðarbæinn.1 Töldu þeir öruggt að þarna væru smalamennirnir og
mundu hafa vasalukt, hefðu þeir séð ljósmerkin og ef til vill heyrt í
bátnum.
Nú voru settir í land í Hellisfirði þeir Guðgeir, Steinþór, Hilmar og
Sveinn. Fóru þeir inneftir norðan ár og mættu smölunum inni hjá
Hellisfjarðarbæ. Þeir voru heldur iUa til reika en þó hressir og gangfær-
ir. Eftir að þeir höfðu verið hresstir á heitu kaffi var haldið úteftir og í
bátinn - og síðan til Neskaupstaðar, en að Skuggahlíð komu þeir kl. 6
um morguninn. Var þá liðinn nær sólarhringur frá því að þeir Guðgeir
og Breiðvíkingarnir lögðu af stað í kindaleitina, eða 23 klukkustundir.
Breiðuvíkursmalarnir fengu strax er þeir komu að Skuggahlíð sitt
staupið hvor af konjaki og næringu eftir því sem þeir vildu, háttuðu
síðan ofan í heit rúm eftir að þeir höfðu afklæðst öUum blautum fötum.
Klukkan um 10 um morguninn voru ferðamennirnir komnir á fætur,
og var þá farið að spyrja þá um ferðalagið. Saga þeirra var á þessa leið:
1 Miðstykki er austan (utan) við Kvígildisdal, en ekki vestan (innan) við hann eins og
merkt er á kortum (1:100,000).