Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Side 10
8
MÚLAÞING
firði og var henni ætlað að sjá um að rituð yrði saga staðarins, svo og
að standa að varðveislu ýmissa annarra þátta - þar á meðal endurbygg-
ingu Gömlu-Búðar.
Strax í upphafi var Hilmar Bjarnason kosinn formaður nefndarinnar
og hefur hann verið það alla tíð síðan, enda hefur hann unnið manna
mest að þessum málum.
Svo var það árið 1968 að halda átti stóra sjávarútvegssýningu í
Reykjavík, og tók Hilmar að sér að safna saman á Austfjörðum ýmsum
hlutum sem snertu sjósókn hér á fyrri tímum. Honum varð mjög vel
ágengt og komu fram í dagsljósið margir athyglisverðir hlutir. Voru
einnig gerð nokkur líkön af húsum og veiðarfærum sem tilheyrðu for-
tíðinni.
Að lokinni sýningunni voru þessir hlutir fluttir austur aftur og þeim
komið fyrir í geymslum.
Um svipað leyti var hafin vinna við lagfæringu á Gömlu-Búð og var
fenginn sérfróður maður um gömul hús, Þorsteinn Gunnarsson arkitekt
og leikari, til þess að leggja á ráðin um endurbygginguna. Þegar dró
að því að húsið yrði tilbúið var búið að ákveða að í því skyldi verða
Sjóminjasafn Austurlands, og var það gert að tilhlutan Safnastofnunar
Austurlands sem þá var nýlega komin á fót undir forystu Hjörleifs
Guttormssonar. Nutum við stuðnings starfsmanna hennar, fyrst Gunn-
laugs Haraldssonar og síðar Ragnheiðar Þórarinsdóttur við að byggja
upp safnið sjálft.
Innréttingu hússins var reynt að hafa sem líkasta því sem verið hafði
í upphafi, en það var greinilegt að húsinu hafði verið breytt að innan,
a. m. k. tvisvar sinnum.
Svo vel vildi til að undir klæðningu á útveggjum fundust leifar af
dyrum og gluggum sem vísuðu leiðina, og í gólfum og loftum mátti
finna teikn um skilrúm. í austurenda var nú innréttuð sölubúð
(krambúð) með tilheyrandi borðum og hillum, og var þar komið fyrir
ýmsum hlutum sem minna á verslun fyrri tírna.
Inn af búðinni, þar sem fyrrum hafði verið pakkhús, var komíð fyrir
sjóminjum, en þar kemst ekki fyrir nema hluti af því sem safnast hefur.
Uppi á loftinu eru til sýnis hlutir sem viðkomu ýmsum þáttum iðnaðar
sem var á Eskifirði á árum áður, eins og sælgætisgerð, skósmíði, tré-
smíði, rörasteypu. Tóvinnslutæki eru þar og gömul tól frá læknisemb-
ættinu og ýmsir hlutir sem notaðir voru við vinnslu úr mjólk og við
matseld.
Safnið var opnað þann 4. júní 1983.