Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 158
SVEINBJÖRN GUÐMUNDSSON
Sandvík
austasta byggð á íslandi
Veturinn 1986 hlustaði eg á viðtal sem Inga Rósa Þórðardóttir deildarstjóri ríkisútvarpsins
á Austurlandi átti við Sveinbjörn Guðmundsson rafmagnseftirlitsmann á Egilsstöðum.
Viðræðuefnið var Sandvík, líf fólks þar, vinnuhættir, náttúrufar þessarar víkur og fleira
henni viðkomandi. Þetta samtal var með þeim hætti að mér kom til hugar að væri álitlegt
efni í Múlaþing. Eg átti tal við Sveinbjörn um þetta og það varð úr að hann léði mér
upptökuna á spólu og eg skrifaði hana upp. Inga Rósa samþykkti einnig þessa fyrirætlun
fyrir sína parta.
Samtalið er þó ekki óbreytt hér. Reynt hefur verið að setja á það hálfgerðan bókmálsstíl,
og einnig hefur það verið aukið nokkuð, m. a. með fulltingi Sveinbjörns, en litlu einu er
sleppt. - Á. H.
Sveinbjörn Guðmundsson er fæddur í Mið-Sandvík 1. október árið
1926. Hann er sonur hjónanna Guðmundar Grímssonar úr Biskups-
tungum í Árnessýslu og Sesselju Sveinsdóttur sem ættuð var m. a. af
Héraði og af ætt Latínu-Magnúsar.
Guðmundur Grímsson barst austur á land í því flóði sunnlenskra
manna sem austur á firði leitaði kringum og eftir aldamótin síðustu.
Hann kom um miðjan annan áratug þessarar aldar, telur Sveinbjörn.
Þau hjónin bjuggu allan sinn búskap á Barðsnesi og í Sandvík og
Guðmundur þó lengur, því að Sesselja andaðist er Sveinbjörn fæddist
1926. Guðmundur bjó eftir það í Sandvíkurseli til 1941 er hann lést.
Eftir fráfall Sesselju sundraðist heimilið og var börnunum komið
fyrir á ýmsum stöðum. Guðmundur fór þá suður á land og dvaldi þar
til 1930, en kom þá aftur og bjó eftir það í Seli.
Sveinbjörn var tekinn í fóstur að Sandvíkurparti og ólst þar upp hjá
Jóhannesi Árnasyni, sem var ekkill, dóttur hans Margréti og Þuríði
Sæmundsdóttur. Einnig voru í heimilinu tveir synir Jóhannesar, Júlíus
og Sveinbjörn. Sveinbjörn Guðmundsson átti heima í Parti fram undir
fermingaraldur og var viðflæktur þar fram undir tvítugt, en fóstri hans
fluttist þaðan árið 1947.