Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Blaðsíða 174
172
MÚLAÞING
hana í tíma, en um þetta leyti var ljósmóðir í Tungu Soffía Hallgríms-
dóttir á Rangá. Nú semst svo um milli hennar og Kristjáns að reynt
verði að ná henni svo fljótt sem hægt væri. Um kvöldið 6. mars kemur
Kristján hér í Hrafnabjörg, sem er örstutt þegar hægt er að komast
beint yfir Jökulsá á ís. Kemur hann nú að máli við okkur Guðmund
Björnsson og fer þess á leit við okkur að hjálpa til að ná ljósmóðurinni
og var það auðsótt mál.
Ferðbjuggumst við nú í skyndi, stigum á skíði okkar og fylgdumst
með Kristjáni austur í Stóra-Bakka og vorum þar um nóttina. Um
morguninn var búist til ferðar. Veður var gott, bjart og stillt. Kristján
var búinn að slá saman skíðagrind, sem ætluð var Soffíu ljósmóður.
Hafsteinn bróðir Kristjáns bjóst til farar með okkur Guðmundi og var
nú lagt af stað. Fórum við sem leið liggur inn í Réttardal, sem er suður
af Stóra-Bakka og liggur út og fram, síðan upp á Lágheiði sunnan
Finnbogahrauns og inn yfir Tangholtablá inn með Heiðarenda og kom-
um í Heiðarsel síðla dags. Færðin var sækjandi fyrir lausgangandi, þó
sukkum við venjulega í miðjan legg og upp undir hné á skíðunum.
í Heiðarseli fréttum við að Soffía væri komin í Skóghlíð og yrði þar
um nóttina. Höfðu þeir Björn Hólm á Rangá og Guðmundur Þórarins-
son á Fljótsbakka brotist með hana á hesti og sleða og létu illa af færð.
Við norðanmenn gistum allir í Heiðarseli og nutum þar hinnar bestu
aðhlynningar, og víst ekki þeir einu sem urðu þess aðnjótandi á því
heimili, því á fyrri árum voru gestakomur tíðari í Heiðarseli en nú er
orðið, enda Guðbjörg Árnadóttir annáluð gæðakona, en hún bjó þar
með manni sínum Gunnlaugi G. Oddsen frá 1910 - 1925. Nú bjuggu
þar Gunnlaugur V. Gunnlaugsson og kona hans Gunnhildur Björns-
dóttir.
Þá er að segja frá okkur félögum. Um morguninn kemur Soffía út
í Heiðarsel og er nú búist til ferðar. Soffía er dúðuð sem mest mátti
og sest hún nú á skíðagrindina. En nú hafði okkur bæst liðsauki því
við höfðum fengið til fylgdar þá Sigþór - Tóta - í Heiðarseli og Guttorm
Árnason í Hlíð, en sá bær stendur í túni Heiðarsels.
Nú er kvatt og haldið úr hlaði. Tilhögun var sú að þrír drógu í einu
en tveir gengu lausir og svo var skipt sitt á hvað eftir óskum. Taugar
voru nokkuð langar með lykkju sem brugðið var yfir öxl og undir hönd
og nú stefndi þessi hópur út og upp frá Heiðarseli og gekk allt vel þótt
hægt færi, því nú tók sleðagrindin allnokkuð í, enda vildi hún draga
með sér snjó þar sem dýpst var. Svona var paufast út með Heiðarenda;
annað slagið var stansað til að blása mæðinni. Ráðgert hafði verið að