Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 177
MÚLAÞING
175
verki gagnvart þeim jörðum eða sveitum, sem þeir eru á eða í. Má segja að þá taki
haugbúinn á sig hlutverk verndarvættar, eins og svo margir aðrir vættir geta gert í þjóðtrú
vorri. Hr þá mikilvægt, að ábúendur launi verndina með því að hindra að viðkomandi
haugum eða féstöðum sé raskað. Gætir þeirrar trúar víða enn í dag, og veldur því m. a.
að flestir slíkir staðir njóta enn vissrar verndar gagnvart tæknibyltingunni.
Hvergi kemur þessi verndartrú skýrar fram en í trú Austfirðinga á völvuleiðin svonefndu,
en þau skipta tugum í þessum landshluta. Hér verður þó ekki fjallað um þau sérstaklega,
heldur leitast við að gefa yfirlit yfir þá fornu hauga og féstaði, sem þekktir eru á Fljótsdals-
héraði, og byrjað í fæðingarhreppi mínum, Fellum.
Ormarshaugur
1 Droplaugarsona sögu, 1.-2. kapitula, er þess getið að Ketill
þrymur Þiðrandason, dvaldi um vetrartíma austur á Jamtalandi í
Svíþjóð, hjá þeim manni er Véþormur hét, og var höfðingi mikill. Afi
hans var Ketill raumur, sem getið er í Landnámu, „hersir ágætur í
Raumsdal í Noregi“, og víðar í fornritum. (Landnáma hefur nokkuð
aðra ættfærslu). Véþormur átti þrjá bræður, sem nefndir eru Grímur,
Guttormur og Ormar, en allir voru þeir bræður víkingar og hermenn
miklir. Höfðu þeir áður herjað í Suðureyjum við Skotland, og numið
þaðan burtu Arnheiði Ásbjörnsdóttur skerjablesa, sem Ketill keypti
síðan af Véþormi, ogkvongaðist, en þau bjuggu síðan á Arnheiðarstöð-
um. Þeirra sonur var Þiðrandi, faðir Þorvalds föður Droplaugarsona,
segir sagan.
Þeir Grímur og Ormar sigldu til íslands sama sumar og Þorvaldur
og Arnheiður. Kom Grímur sunnan að landinu og gerðist landnáms-
maður í Grímsnesi, en Ormar kom í Reyðarfjörð, og fór fyrst til Ketils.
„Á vorþingi kaupir Ketill land fyrir Ormar. Hét það á Ormarsstöðum.
Það var nokkru utar með vatninu, og bjó Ormar þar til elli.“ Ekki er
Ormars þessa getið víðar í fornsögum, svo mér sé kunnugt, en kemur
hins vegar fyrir í þjóðsögum seinni tíma (sjá Spak-Bersa þátt í Þjóðsög-
um Sigfúsar Sigfússonar, IX bindi, bls. 18 - 23), og í heimild þeirri er
nú skal greina.
I bókinni „Frásagnir um fornaldarleifar 1817 - 1823“, sem gefin var
út af Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík, árið 1983, 2. bindi, er
prentuð skýrsla séra Benedikts Þórarinssonar pr. í Ási í Fellum (1795
- 1856), dagsett 4. janúar 1848, og er því töluvert yngri en aðrar
skýrslur í bókinni, enda rituð af öðru tilefni en þær og því birt sem
viðbætir. Skýrsla Benedikts er fróðleg fyrir margra hluta sakir, og m.
a. er þar kafli „Um hauga“, er svo hljóðar: