Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Side 181
MÚLAÞING
179
Breiðastur er hann að norðanverðu, og hallar þar nokkuð út, en er
sumsstaðar nærri láréttur, og endar að utanverðu í þverbröttum stalli,
sem er víða Vi - 1 m á hæð, og líkist því að vera hlaðinn af manna
höndum. Það er líka efalaust þessi stallur, sem hefur gefið tilefni til
þess, að menn héldu hauginn vera umluktan torfgarði, og kemur það
greinilega fram í lýsingu séra Benedikts, sem segir að haugurinn liggi
„út á innri brún hleðslugarðsins". Ummál hólsins, gengið yzt á stallin-
um, reyndist mér vera um 110-120 skref (metrar), sem er mjög nálægt
mælingu Benedikts.
Hvers konar fyrirbrigði er þá þessi stallur? Mér sýnist augljóst, að
hann sé til orðinn við hægfara skrið á möl og jarðvegi utan af melnum.
Slíkt hægfara jarðvegsskrið er vel þekkt fyrirbæri hér á landi, sem
víðar á norðurslóðum, þar sem tíð skipti eru á frosti og þíðu yfir
veturinn, og má raunar sjá það utan í flestum melum og holtum, þótt
það sé sjaldan svona greinilegt. Þar sem stallurinn er algróinn, og
sérstaklega kantur hans, veitir hann viðnám við jarðskriðinu, og verður
því líkast sem það velti út yfir mýrina, sem að líkindum er oft frosin
eða svelli lögð, þegar jarðskriðið er mest, og því verður ytri kanturinn
svona þverhnípur, líkastur hlöðnum garði. (Varla er ástæða til að ætla,
að túngarðurinn sem fyrr getur, hafi ruglað Benedikt og aðra í ríminu,
enda þótt hann sé mjög nálægt haugnum, enda líklega ekki mjög
gamall).
Ormarshaugur er allur úr fremur fínni möl, sem virðist allmikið
blönduð jökulleir á yfirborðinu. Melar úr sams konar efni eru víða á
þessum slóðum, m. a. utan við og ofan við Hlíðarselsbæinn, þótt hvorki
séu þeir einstakir eða viðlíka reglulega lagaðir. Slíkir melar hafa mynd-
ast við framburð jökulvatna, síðast á ísöldinni, þegar þunnur og kyrr-
stæður ís lá yfir landinu þarna. í slíkum jöklum eru oft hringlaga holur
eða göt, sem geta fyllst af möl, og myndað mela á borð við Ormarshaug,
þegar jökulísinn bráðnar frá þeim. Engar steinhleðslur eru sjáanlegar
á melnum, eða annað sem bent gæti á, að hann hefði verið notaður
sem legstaður.
Hitt er augljóst, að því hefur verið trúað, að Ormarshaugur væri
fornhaugur, eins og fram kemur í tilvitnuðum heimildum. Um það
vitnar m. a. áberandi dæld sem er SSV í kolli hans, um 5 m breið og
allt að 1 m djúp, en hefur þó eflaust verið mun dýpri þegar hún var
grafin. Smákvosir eru einnig í melinn á nokkrum stöðum að norðan-
verðu, og á stallinum fyrrnefnda er ferköntuð dæld, um 2 x 2 m, einnig
að norðan, sem gæti þó hafa verið gerð af öðrum ástæðum.