Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Síða 195
MÚLAÞING
193
ingu þurftu baggarnir að vera glerharðir eins og lundabaggar úr pressu,
annars slöknuðu böndin á þeim og þeir fóru illa á klakk.
Nú skal vikið að þeirri hlið kaupstaðarferða sem sneri að börnum
og unglingum. Þegar þær stóðu til hillti alltaf undir eitthvað sérstakt
sem hugurinn þráði.
Það strandaði mest á því vandamáli að hafa eitthvað til að kaupa
fyrir. Um peningaeign var vart að ræða, og víðast mun gjaldeyririnn
ekki hafa verið annað en upptíningur, ullarlagðar sem fé týndi. Eg
man glöggt hvað við krakkarnir gengum upp í þessari gróðahyggju -
þá var nú ekki verið að metast um að ganga við féð.
Öll ull sem fé týndi var almenningseign. Samt var þetta dálítið flókið
mál, svo við settum okkur fastar reglur við þessa öflun.
Þegar illa voraði og fé gekk ekki vel undan vildi ullin flagna af, nær
allt reyfið í einu. Fyndi maður svona skammt var hann að sjálfsögðu
hirtur, en það sem myndaði spennu var að rekast á kindur sem drógu
hálf og heil reyfin á eftir sér. Ekki mátti hlaupa og taka í skiksið, slíkt
heyrði undir þjófnað.
Annað var það sem enginn gat bannað, og það var að reka kindurnar
til, drolla á eftir þeim, ef ske kynni að þær nudduðu sér við moldarbarð
eða ullin festist á viðarhríslu og kipptist af.
Þá var maður á grænni grein.
Mestur akkur var kviðullin, því hún var þyngst í vikt, en hún lenti
aldrei í fyrsta flokk, enda ekki upptíningur yfirleitt.
Eg var 12 ára þegar eg fór mína fyrstu ferð til Seyðisfjarðar.
Þetta var óvanalegur aldur, því Seyðisfjarðarferðir unglinga voru
bundnar við ferminguna. Ferming og ferð til Seyðisfjarðar var óað-
skiljanlegt, eitt hugtak. Fermingin var frelsun frá margra ára refsidómi
kristindómsfræðslunnar og hliðstæða við: „Sjá Napólí og dey síðan.“
Þetta einstaka lán mitt lá í því, að frá því að eg var þriggja ára hafði
eg verið mesti Lasarus og á hverju vori verið að því kominn að vera
borinn í skaut Abrahams. Nú hafði eg níu ár svolgrað hómópatameðul
svo rétt þótti að reyna allópata.
Þetta átti nú að fara leynt, en einhvern veginn fékk eg pata af því
og reis þá sterk fagnaðaralda í huga mínum, best mundi þó að tala
sem minnst.
Eg vissi að eg þurfti að fara yfir margar ár smærri og stærri, en slíkt
skipti engu, verst var að mega aldrei fara nema lestagang. Samt átti
að fara greitt, teyma aldrei hægar en það að hestarnir köstuðu toppi.
13