Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Qupperneq 196
194
MÚLAÞING
Ekkert skal eg um það segja hvort tilhugsun um kaupstaðarferð
hefur gert einhvern að betri manni, en svo var um mig í svip. Mér óx
djörfung og sjálfstæði við allar þær glæstu hugmyndir sem brugðu á
leik í huga mínum.
Jafnframt ásetti eg mér að brjóta ekkert af mér, tók meira tillit til
systkina minna og var boðinn og búinn að gera allt sem eg var beðinn
um eða eg vissi að vonast var eftir.
Verst var að dagarnir ætluðu aldrei að líða, þeir virtust jafnvel latari
en eg var talinn. Þó rann sá dagur er lagt var upp. Kvöldið áður var
úttektin skrifuð upp á miða og var það hlutverk mömmu. Sjálfsagt var
þetta mikið hugarstríð hjá mörgum húsfreyjum.
Fyrstur á blaði var hinn venjulegi matvöruskammtur, um hann þurfti
ekki að deila. Hitt var erfiðara, þegar kom að fatnaði, búsáhöldum og
mörgu öðru sem konurnar höfðu auga á og þótti nauðsynlegt.
En til alls þessa þurfti nokkurs konar aukafjárlög.
Bændur voru margir tregir í taumi hvað snerti bæði fatnað, rúmföt
og innanhússáhöld. Þessu fylgdi og getuleysi til kaupa, en þó alls ekki
að öllu leyti, heldur steingerður vani og blint auga fyrir nýjum þörfum.
í kaupstaðarferð var ævinlega lagt snemma að morgni og haldið í
einum áfanga til Seyðisfjarðar.
Eg vaknaði klukkan að ganga 6 og fór að tína á mig spjarirnar. Hafði
eg annars sofnað? Þegar eg háttaði var hver taug spennt og svefn fjarlægur.
Hugmyndirnar háðu stríð í kollinum á mér og þar var ekki um neina
friðarskilmála að ræða. Eg reyndi að breiða sængina upp yfir höfuðið og
halda niðri í mér andanum, en það hafði þau áhrif að svitinn draup af
mér og eg varð að svipta af mér sænginni. Sú skelfing greip mig, kannski
yrði eg veikur og gæti ekki farið. Nei, slíkt skyldi aldrei ske! og eg bylti mér.
Ætti eg að lesa faðirvorið, það hafði mér verið sagt að gera á hverju
kvöldi? Á því urðu nú víst Hálfdanarheimtur, því Norðurlandasögurn-
ar hertóku hug minn. Hrólfs sögu Gautrekssonar, Bósa sögu og Her-
rauðs tók eg langt fram yfir allan kristindóm.
„Ósköp ertu fölur barn,“ sagði mamma, „ertu eitthvað veikur?“
„Veikur, nei, aldrei liðið betur. Bara svolítið ringlaður.“
Það gekk vel að koma upp á hestana, enda var lestin ekki stór, en
falleg var hún. Pabbi átti alltaf úrvalshesta en höfuðprýðin var Stóri-
Brúnn, verðlaunahestur og talinn sá stærsti og fallegasti á Héraði.
Pokarnir á hann voru gamlir póstpokar sem tóku um þriðjungi meira
en svonefndir tunnupokar.