Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Side 198
196
MÚLAÞING
Þetta kjöt þótti gott þá, en mundi fúlsað við því nú. Oft var það
svo seigt að hefðu verið til hjólhestar, mundi einhverjum hafa dottið
í hug að þetta væri kjöt af þeim.
Mamma geymdi ævinlega eitt hangikjötslæri til þessarar ferðar og
flagaði það hrátt ofan á flatbrauð með smjöri. Mikið bragðaðist þetta
vel með bæði mjólk og kaffi. Enn í dag er þetta besti áskurður sem
eg fæ ofan á brauð.
Eftir snæðing hallaði pabbi sér upp að reiðingi og setti hattinn fyrir
andlitið. Svona fuglsblund tók hann sér alltaf eftir mat og kaffi, snaraðist
síðan upp eins og Bjartur í Sumarhúsum. Síðan var drifið upp á hestana.
Vegurinn inn Gilsárdal er grýttur og dalurinn lítt grösugur, þarna
er melur við mel, gil við gil, ár og lækir. Ár þessar voru þó ekki
hættulegar utan ein, svonefnd Lambadalsá. Þar átti ættardraugur minn,
Eyjaselsmóri að hafa drepið langafa minn.
Þessi Lambadalsá var mesti óvætturinn á Gilsárdal. Hún rann í
þröngu gili og varð ekki riðin nema á fossbrún. Fossarnir voru tveir,
og á vaðinu þar sem vegurinn lá yfir, var heljarbjarg rétt á fossbrúninni
og neðan við það þurfti að ríða. Hvergi annars staðar var vað á þessari á.
Á Gilsárdal skorti ekki snjó á sumrum, og í hitaveðrum var Lamba-
dalsá alltaf nokkuð vatnsmikil því aðdragandi er stuttur.
Við höfðum farið af baki við ána. Það var ekki mikill vöxtur í henni,
en steinhnullungar berast alltaf á vaðið ofan úr gilinu.
Sagan um afdrif Einars afa míns rekur sig áfram í huga mínum. Mér
finnst eg standa í sporum Þóru ömmu minnar. Hún fékk að fara til
Seyðisfjarðar vorið áður en hún var fermd og varð þess ásjáandi að
faðir hennar fórst.
Þegar lestin kom að ánni á heimleið var hún alldjúp. Einar reið lítt
tömdum fola, sem hann hafði að láni og átti að ganga sama sem laus.
Eigandi kvað svo á að yrði þessu ekki hlýtt skyldi Móri hefna þess.
Einar reið á undan út í ána og teymdi klyfjahest. Þegar hann er að
krækja fyrir steininn sér skyggn maður sem var í förinni, að eitthvað
stekkur af steininum og yfir á lend folans. Hann ærist og vill áfram en
klyfjahesturinn þokaðist ekki.
Einar var rammur að afli og vildi ekki sleppa taumnum. Þetta endaði
með því að folinn rís upp á afturfæturna og taumurinn slitnaði. Um
leið fór folinn aftur yfir sig og kippti Einar honum með sér fyrir fossinn.
Hálfdan sonur Einars æddi út í ána milli fossanna til að bjarga föður
sínum, en náðist áður en hann fór fyrir neðri fossinn. Einar náðist
ekki fyrr en niður við Gilsá. Hann hafði áverka á höfði og var andaður.