Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Side 204
202
MÚLAÞING
í allt öðrum tón en menn í sveitinni. Þetta var svona hálfkæringstónn
og glottandi skætingur. Seinna skildi eg þessa vörn, hann vildi sýna
þessu fólki að hann væri því ekkert lægri í neinu.
Eg stoppaði nokkra stund þar sem verið var að þurrka saltfisk, og
aldrei hafði eg séð svo fallegan fisk, skjannahvítan og ilmandi. Sá
fiskur sem Héraðsmenn keyptu til matar, steinbítur og hlýri, var eir-
rauður af gærusalti, einnig sólsteiktur fiskur og stórufsi upp úr salti.
Allt þetta var í rauninni engri skepnu ætt.
Fólkið þarna masaði og hló eins og allt lífið væri eitt sólskinsvor. Þarna
voru háir staflar af fiski, og karlar og konur létu þar blíðlega hvort að
öðru. Þetta mun hafa verið í kaffitíma. A bak við háan stakk lágu piltur
og stúlka og voru eitthvað að flangsast. Allt í einu tók hann utan um
hana, og eg hlakkaði mikið til að þau færu að fljúgast á. En það var
verra en það, hann fór bara að kyssa hana. Allt í einu leit stúlkan upp og
kom auga á mig. „Á eg kannski að kyssa þig líka?“, sagði hún, en þá var
eg fljótur að forða mér. Sem betur fer rættist sú fælni af mér með aldrinum.
Þennan dag kláruðum við öll okkar viðskipti, síðasta ferðin var í
Apótekið til að sækja hundaskammtinn. Mikið var eg hrifinn af öllum
flöskunum og krúsunum sem eg sá í Apótekinu. Við heima vorum
alltaf í hallæri með flöskur, þær voru hafðar til að bera í kaffi á engjar,
undir berjasaft og fleira. Þær vildu brotna, en drykkjuskapur lítill
heima, svo viðbót var hægfara.
Fyrir skömmu las eg í gömlum hreppsbókum Tungumanna um
„axjón“ sem skáldið Páll Ólafsson hélt og seldi þar eitthvað úr búi
sínu. Þar var mikið selt af tómum flöskum. Nafni minn á næsta bæ
keypti þar sjö flöskur á 5 aura og margir öfunduðu hann af þessum
kjarakaupum.
Það var mikil ös í Apótekinu og mest Héraðsmenn. Lítið var keypt
af meðulum en allir voru með „skammt“. Ekki er svo að skilja að
drykkjuskapur væri mikill, fáa sá ég fulla á þessum árum í kaupstaðar-
ferðum - en „mjúka“. Það er nú kallað vera „rakur“.
Menn gættu þess að klára allar sínar sakir fyrst, en síðasta kvöldið
gerðu margir sér glatt í sinni og þá ekki síður á heimleiðinni. Þá var
oftast einhvers staðar glas á lofti, og eg man hvað mig langaði í þessa
guðsblessun þegar eg ætlaði hvað eftir annað að sofna í hnakkpútunni.
En slíkt mátti eg ekki, þetta væri óhollt fyrir mig, minn glaðningur
bara steinsykur, kóngaspörð og rúsínur. Mér fannst þetta ósköp skrýtið
eins og þetta sýndist meinhollur skratti fyrir karlana og söngurinn var
svo mikill að lögin slitnuðu vart sundur.