Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 210
208
MÚLAÞING
Mat áttum við að leggja til, en vildum hafa sem minnstan kostnað.
Lifðum mest á snöpum því margt féll til í sláturtíðinni.
Það kom oftast í minn hlut að hitta Jóa. Þegar eg kom til hans varð
hann hinn versti og sagði að við gætum farið í staðinn sem hann var
vanur að vísa á. „Það er náttúrlega hægt, en okkur langar til að borða
fyrst.“
„Og stelið þið þá bara einhverju í kjaftinn á ykkur.“
Oft fórum við forstjórarnir með stóran blikkbala og fylltum hann af
harðgreipum. Þetta mátti borða en þurfti mikla verkun. Tvo menn
máttum við taka úr vinnunni til að elda miðdag og kvöldmat. Einu
sinni mættum við Jóa og vorum með balann fullan af harðgreipum.
„Hverju hafið þið nú stolið?“ - „Engu, við keyptum það í staðnum
sem þú vísar okkur stundum á.“ - „Þetta líkar mér,“ sagði þá Jói.
Einni harðgreipusúpu gleymi eg aldrei. Tveir óvaningar áttu að elda
og suðu fullan stóran pott af þessu góðgæti. Þegar við komum að borða
angaði allt af þessari blessaðri kjötsúpulykt. En sem við dýfðum skeið-
inni í og blésum á vegna hitans var hún nær tóm er að munni bar.
Þetta lá í því að hárin í skeiðinni voru svo mikil að súpan rann í lækjum
niður af þeim. Við þetta hvarf öll matarlyst.
Stundum innhentust okkur heilir kjötskrokkar og þá var glatt undir
borðum. Þannig hagaði til að kjötskrokkarnir voru hengdir í gálga úti
á bryggjunni sem húsið stóð við, og það kom fyrir að æs slitnaði og
skrokkur lenti í sjóinn. Þá var vandinn ekki annar en að fara undir
bryggjuna á fjöru og hirða hann. Þetta kom ekki oft fyrir - og þó.
Grunur lék á að menn hjálpuðu til við þetta stundum, en strákarnir
aftóku slíkt.
Eg er hræddur um að nú á dögum væru menn hræddir við mengun
á þessum stað - undir bryggjum því margt barst þangað.
Jói er fastmótaður í minni, lítill maður, dökkur ásýndum, enginn
fríðleiksmaður, en gat sjálfsagt verið bráðskemmtilegur, mjög lifandi
maður og sagður hafa mikla kvenhylli, enda átti hann fallega konu og
bráðefnileg börn.
Verra var að eiga við karl sem hafði umsjón með slátrunum. Við
keyptum stundum svið, en karl hélt alltaf að við værum að stela og
var önugur og afundinn. Við vorum honum því oft gramir, ekki síst
vegna þess að hann var Héraðsmaður í upphafi.
Þó gerði eg við hann fyrstu heildsöluviðskiptin á ævinni. Eg var á
förum og átti von á hestum að heiman undir slátur. Þegar eg í lokin
var að taka slátrin og búast til heimferðar var karl að vanda mæddur