Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 83
83
5. Kirkjuárið lagt til grundvallar og messum raðað niður eftir messuskyldum. Einnig er
unnt að ræða annað samstarf, svo sem barnastarf og fræðslu.
6. Sóknarprestar á samstarfssvæðinu funda í ágústlok eða byrjun sept. og velja úr sínum
hópi leiðtoga fyrir eitt ár í senn.
Sent var út bréf til allra presta og sóknarnefnda um málið og þessi áætlun þar með. Málið
var einnig til umfjöllunar á prófastsfundi í mars og síðan á Leikmannastefnu í apríl og
Prestastefnu 2011, eins og gert var ráð fyrir.
Hins vegar er ekki vitað um hvort sóknarprestar hafi almennt fylgt eftir framkvæmda
áætluninni og haldið fundi heima með sínu fólki eins og segir í 2. lið hér að ofan. Þó er
vitað að það hafi verið gert en á mjög fáum stöðum. Í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra
hefur þessu verið fylgt eftir þar sem þrjú samstarfssvæði hafa komið sér saman um
samstarf um messur og annað sem þau hafa sjálf talið henta vel á samstarfssvæðunum.
Einn prestur á hverjum svæði hefur tekið að sér að stýra verkefninu. Héraðsnefndin lagði
til skilyrtan styrk til svæðanna sem virkaði sem hvatning til að hefjast handa. Þá er vitað
að á öðrum stöðum hafi einkum prestar komið saman á svæðum og átt samstarf um vissa
þætti í prestsþjónustunni.
Hugmyndin um samstarf presta og sókna á samstarfssvæðum er annað en það samstarf
sem prestar og sumar sóknar hafa alltaf átt og eiga og byggist oft á óformlegu samtali milli
einstaklinga og ræðst oft af persónulegum áhuga þeirra. Með samstarfssvæðum er átt við
formlegt samstarf skv. ákvörðun kirkjuþings þar sem allir prestar á svæðinu svo og allar
sóknir skulu vinna sem ein heild til að tryggja að sem flestir innan svæðisins megi njóta
grunnþjónustu kirkjunnar, óháð stærð sóknar.
Svo virðist sem framkvæmdin um samstarfssvæði fari hægt af stað og víða hefur lítið
sem ekkert gerst. Ekki er víst hverju það veldur en e.t.v. gildir hér sem í öðrum málum að
eftirfylgd skortir, enginn finni til ábyrgðar að fylgja málinu eftir og fé ekki nægjanlegt svo
unnt væri að ráða einhvern til starfans, sem oft virðist vera besta úrræðið.
Eins og áður segir var kirkjustarfshópi falið af hálfu kirkjuráðs að leggja fram tillögur
um framkvæmdaáætlun og gerði það og var málið sett í hendurnar á próföstum að ýta
málinu úr vör með formlegum hætti. Þrátt fyrir hik, áhugaleysi eða hvað það er sem hefur
hindrað prófasta og presta og sóknarnefndir að sýna málinu áhuga telur nefndin um
skipan prestsþjónustunnar rétt að fela próföstum þetta hlutverk og í raun auknar skyldur
í þessu máli.
Því leggur nefndin hér til í fyrstu tillögunni að prófastar verði leiðtogar eða verkstjórar
samstarfssvæðanna. Prófastar eru sérstakir fulltrúar biskups í héraði og gegna mikilvægu
hlutverki í að tryggja að þjónusta kirkjunnar. Í starfsreglum um prófasta segir m.a. :
7. gr. Prófastur hefur í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu,
embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda. Hann er tilsjónarmaður
og ráðgjafi þessara aðila.