Skagfirðingabók - 01.01.2016, Page 33
KAUPMANNSHJÓNIN Á SAUÐÁRKRÓKI
33
systurnar í Barði, gistu þá á hóteli. Einu
sinni sigldu þau með Maríu dóttur sinni
og Guðfinni Einarssyni tengdasyni til
Skotlands og Norðurlanda um 1966.
Starfið, búðin og fjölskyldan á Króknum
var þeim allt. En Haraldur var ekki
einhamur og hafði fleiri járn í eldi.
V
PÁLMI RÖGNVALDSSON vann vetrarlangt
í Verzlun Haraldar Júlíussonar 1968–69.
Honum segist svo frá: „Það mun hafa
verið haustið 1968 sem ég fór að vinna í
Verzlun Haraldar Júlíussonar og ég vann
þar til vors 1969. Þegar ég kom þarna í
fyrsta skipti var ég drifinn inn í eldhús í
kaffi og meðlæti, því ég var kominn um
langan veg að handan. Þarna byrjuðu
kynni mín af þeim sómahjónum Haraldi
og Guðrúnu. Þau tóku mér opnum
örmum og á heimili þeirra átti ég
einstaklega góðu viðmóti að mæta, en ég
leigði hjá þeim herbergi um veturinn.
Eftir stutt spjall við gömlu hjónin
þá arkaði ég fram í búðina til þess að
sinna þeim störfum sem ég var ráðinn
til. Rétt í því vindur sér inn í búðina
gömul kona og spyr Bjarna hvort hann
eigi drullusokk. Bjarni bendir á mig
og segir: „Bara þennan og ég má ekki
missa hann.“ Ég hugsaði með mér að
þetta skyldi hann fá borgað, en ég held
að það hafi ekki tekist ennþá þó oft hafi
ég reynt. Ég minnist þess að þennan
fyrsta morgun sendi Bjarni mig niður í
kjallara til þess að ná í stígvél sem voru í
einhverri hillu sem hann tiltók. Ég þaut
niður stigann, enda maður á besta aldri,
en þegar ég kom niður og leit í kringum
mig þá leið mér líklega ámóta og barni
sem kemur í fyrsta skipti í Disney-
land. Ég rak upp stór augu því þarna
var ótrúlega margt að sjá og þarna ægði
saman hinum ýmsu hlutum, svo ég var
nærri því búinn að gleyma hvað ég átti
að sækja, svo undrandi varð ég. En ég rak
augun í stígvélin fyrir algjöra tilviljun og
flýtti mér aftur upp stigann með þessa
góðu gripi. Það var mikið vöruúrval í
Verzlun Haraldar Júlíussonar og ef það
var ekki til sem fólk vantaði, þá reyndu
þeir að útvega það með fyrstu ferð eins
og sagt var. Enda voru engin takmörk
fyrir þjónustulund þeirra feðga. Það
var mjög gaman að vinna hjá þeim og
kynnast þessari einstöku fjölskyldu, og
hjá þeim feðgum fóru saman brennandi
Haraldur og Pálmi
Rögnvaldsson við störf í
búðinni. Ljósmyndarinn
hefur verið ókyrr því myndin
er ekki alveg í fókus.