Skírnir - 01.04.2002, Side 184
178
BJORN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
án afskipta þeirra sem hún hefur þó róttæk áhrif á. Umræða um skrif
Fukuyama um endalok sögunnar getur því varpað ljósi á nýjustu fréttir af
áhrifum hnattvæðingar.8
í bók sinni kveður Fukuyama hugmynd sína um Söguna með stórum
staf eiga margt að sækja til „hins mikla þýska heimspekings G.W.F.
Hegels“9 - og þessi skyldleiki nær þar með einnig til hins þekkta lærisveins
Hegels, Karls Marx. Þó ber okkur, að sögn Fukuyama, að gera greinarmun
á meistaranum og lærlingnum hvað þetta snertir: hvorir tveggju „trúðu því
að þróun mannlegra samfélaga væri ekki óendanleg, heldur tæki hún enda
þegar mannkynið næði að skapa samfélagsgerð sem fullnægði hinum
dýpstu grundvallarþörfum. Báðir þessir hugsuðir settu því fram hug-
mynd um ‘endalok Sögunnar’: Hegel taldi þau felast í hinu frjálslynda
ríki, en Marx taldi þau búa í þjóðfélagi kommúnismans."10 Til að skýra
frekar merkingu hugmyndarinnar um endalok Sögunnar bætir Fukuyama
því við að hún feli í sér að ekki verði „frekari framfarir hvað varðar þró-
un grundvallarstofnana og þeirra grunnreglna sem undir liggja, vegna þess
að svörin við öllum stærstu spurningunum verði þá komin fram“.n Og
svo vill til, að mati Fukuyama, að ástand mála í hinum vestræna heimi um
þessar mundir ber einmitt öll merki þess að þau álitamál sem orð sé á ger-
andi hafi verið afgreidd og leyst. Þessa uppgötvun eignar Fukuyama
raunar þriðja læriföður sínum, og kannski þeim mikilvægasta, nefnilega
rússnesk-franska heimspekingnum Alexandre Kojéve, og lýkur lofsorði á
hann fyrir að hafa „bent á mikilvæga staðreynd þegar hann fullyrti að
Bandaríkin eftir stríð og aðildarríki Evrópusambandsins væru holdtekn-
ing ríkis hinnar algjöru gagnkvæmu viðurkenningar sem Hegel lýsti.“12
Um þennan mikla viðburð í Sögunni, hina „mikilvægu staðreynd" sem
Kojéve vakti máls á, hefur Fukuyama þau orð að þarna séu á ferðinni glæ-
nýjar „góðar fréttir“13 - það er að segja, nýtt fagnaðarerindi í upphaflegri
merkingu þess orðs,14 að þessu sinni pólitískt og efnahagslegt fremur en
8 Þess ber að geta að Fukuyama er engan veginn sestur í helgan stein og hefur á
síðustu árum meðal annars fengist við að halda á loft málstað hnattvæðingar-
innar, sem hann segir eina kostinn í stöðunni: „Þrátt fyrir afturkippi og efna-
hagslegan óróa á síðari hluta tíunda áratugarins er hnattvæðingin eina færa leið-
in til efnahagslegrar framþróunar" (Francis Fukuyama, „Áhrif hnattvæðingar á
einstakling og samfélagsvitund“, Páll Björnsson þýddi, bls. 16-25 í Hjálmar
Sveinsson og Irma Erlingsdóttir (ritstj.), Framtíð lýðrxðis á tímum hnattvœð-
ingar, Atvik 4, Reykjavík, Bjartur/ReykjavíkurAkademían 2000, bls. 24).
9 Fukuyama, The end of history and the last man, bls. xii.
10 Sama stað.
11 Sama stað.
12 Sama rit, bls. 203.
13 Sama rit, bls. xiii.
14 Hér er skírskotað til gríska orðsins evanggelíon, sem þýðir bókstaflega „góðar