Skírnir - 01.04.2002, Side 202
196
JÓN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
Hvernig er hxgt að hugsa um verðmœtif
Það er gamalgróið viðhorf að hugsun um verðmæti eða gildi sé yfirleitt
ólík hugsun um staðreyndir. Það sem fólk kunni að meta, eða kunni ekki
að meta, sé háð smekk en ekki skynsamlegri yfirvegun. Siðferðileg gildi
eru þó oft talin hafa sérstöðu, um þau megi komast að skynsamlegum
niðurstöðum og því sé unnt að gera grein fyrir réttri og rangri breytni. í
því felst þó sá ókostur að siðfræðin er slitin frá tilfinningum, sjálfsmynd
og þroska. Þannig er eins og hugsun um rétta breytni og dygðugt líferni
sé hugsun af allt öðru tagi en umhugsun um lífsins gagn og nauðsynjar.
Þessi lýsing á sérstaklega við um siðfræði Kants en í raun má heimfæra
hana upp á siðfræðikenningar sem leita réttlætinga á siðferðinu utan sið-
ferðisins sjálfs.14
í siðfræðikenningum er oft gerð tilraun til að gefa siðadómum skyn-
samlega eða vitræna merkingu. Þær geta einnig dregið í efa að siðadómar
hafi slíka merkingu. Þeir séu einfaldlega tilfinningatjáning og feli einvörð-
ungu í sér velþóknun eða andúð. Merking siðadóma var lengi eitt helsta
ágreiningsefni siðfræðinnar og rökræður um það efni gengu næstum af
henni dauðri um miðbik 20. aldar. En eins og Elizabeth Anscombe benti
á í frægri grein sinni, „Modern Moral Theories“, var þar litið framhjá að-
alatriðinu: Það er óhugsandi að hægt sé að segja eitthvað af viti um sið-
ferði öðruvísi en með því að leggja til grundvallar einhverja hugmynd um
sálar-, vitsmuna- og tilfinningalíf manna. Með þessu lýsir Anscombe í
hnotskurn þeirri viðleitni sem einkennir siðfræði Deweys.15
Vandi siðferðisins er í augum Deweys sá vandi sem hver maður stend-
ur frammi fyrir þegar gildismat hans, hvernig sem það er tilkomið, dugir
ekki til í tilteknum aðstæðum, þegar gildin lenda í mótsögn hvert við ann-
að og aðstæðurnar knýja mann til að velja þannig að það krefjist endur-
mats á gildunum. Þessi skilningur Deweys á siðfræði er nátengdur hug-
14 Um þetta efni hefur Logi Gunnarsson skrifað ítarlega, sjá Making Moral Sense,
Cambridge University Press, Cambridge, 2000, og „Er skynsamlegt að vera
dyggur, trúr og tryggur?", Hugur, 12.-13. árg. 2001, bls. 6-25.
15 Sjá Charles Stevenson, The Language of Ethics, Yale University Press, New
Haven, 1944, bls. 152-153. Sjá einnig Richard Rorty, „Die Gegenwártige Lage
der Moralphilosophie“, Deutsche Zeitscbrift fiir Philosophie 49, 2, 2001, bls.
181-183. Sjá ennfremur Elizabeth Anscombe, „Modern Moral Theories"
[1958], The Collected Philosophical Papers of G.E.M. Anscombe, 3. bindi,
Ethics, Religion and Politics, Blackwell, Oxford, 1981, bls. 26; Dewey, Human
Nature and Conduct [1922], The Middle Works, 14. bindi, Southern Illinois
University Press, Carbondale, 1983, bls. 152; The Ethics [1932], The Later
Works, 7. bindi, Southern Illinois University Press, Carbondale, 1989, bls. 165.
Þarna má líka benda á sameiginleg einkenni aristótelískrar siðfræði og heimspeki
Deweys, en sá samanburður er flóknari en svo að rétt sé að fara út í hann hér.