Skírnir - 01.04.2002, Síða 206
200
JÓN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
þjóðfélag er margradda og við vitum að þannig á það eftir að vera lengi
enn. Aðalverkefni okkar tíma er að komast að því hvernig veita megi
þessum marghljómi í einn farveg samhljóms og koma í veg fyrir að hann
leysist upp í ósamstæða hljómasúpu.“25
Bauman er sammála pragmatistum um að margröddun sé óumflýjan-
legt einkenni nútímans. En hann fer aðra leið en þeir í úrvinnslu sinni.
Hann telur að aðalatriðið sé að varðveita tilfinninguna fyrir því að hópur
manna, jafnvel mannkyn allt, hafi sameiginlegt markmið og líkir því við
að leita samhljóms. En hvers vegna skyldi slíkt markmið vera talið mögu-
legt eða mikilvægt? Á hin forna líking um samhljóm mannlegs atferlis við
í nútímasamfélagi? Eða er hugmyndin um samhljóm aðeins gamli draum-
urinn um afturhvarf undir fölsku yfirskini, nátengd þeirri meginhug-
mynd að maðurinn hafi tapað einhverju mikilvægu á leið sinni til nútím-
ans, nútímavæðingin hafi firrt hann því sem nauðsynlegt sé að endur-
heimta?26
Upprunalegu pragmatistarnir voru módernískir hugsuðir fremur en
póstmódernískir. En óvissu, það sem Bauman nefnir „hið aporetiska
ástand“, töldu þeir ekki böl eða missmíð sem hægt væri að losna við eða
leiðrétta með réttri kenningu, heldur eitt megineinkenni nútímans.27 I
heimspeki Deweys er fjölhyggja nútímasamfélags veruleikinn sem við
hljótum að ganga út frá en ekki vandamálið sem heimspekin eigi að glíma
við. Dewey var andvígur heimspekilegri afstöðu sem hafnar nútímanum
eða samfélagsháttum okkar daga. Slík afstaða kemur í veg fyrir að hægt sé
að segja eitthvað um veruleika mannsins og kæfir í raun pólitíska rót-
tækni. Dewey hafði þó tvíbenta afstöðu til samhljóms. Annars vegar taldi
hann að samhljómur eða sameinaðir kraftar væru nauðsynleg forsenda
þess að samfélög ynnu saman. En þá átti hann við smærri samfélög og
samfélög í óbeinni merkingu, eins og t.d. vísindasamfélagið. Hins vegar
taldi hann að vafi og togstreita væru nauðsynleg forsenda rannsóknar og
þar með nauðsynleg forsenda framþróunar. Andstæður samhljóms og
25 Zygmunt Bauman, Alone again: Ethics after Certainty, Demos, Lundúnum,
1994, bls. 40. Bauman hefur þó ekki sérstaklega getið áhrifa af þessu tagi. Svip-
að á við um franska félagsfræðinginn Bourdieu, en í verkum hans má sjá marg-
víslegan skyldleika við pragmatista þó að Bourdieu hafi sagst saklaus af lestri á
verkum þeirra.
26 Alasdair Maclntyre er annar höfundur sem boðar fortakslaust afturhvarf í sið-
fræði sinni, eins og áður er sagt, og það sama á við beint og óbeint um marga
þeirra heimspekinga sem stunda dygðasiðfræði.
27 Sjá Zygmunt Bauman, Postmodem Ethics, Blackwell, Oxford, 1993, bls. 8.
Aporia er hugtak ættað frá Forngrikkjum og vísar til þversagnar eða vanda,
sem enn er óleystur þegar heimspekileg samræða hefur leitt í ljós að tiltekin
svör við hversdagslegum spurningum eru annaðhvort ósamkvæm sjálfum sér
eða röng.