Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 6
G u ð m u n d u r Pá l l Ó l a f s s o n
6 TMM 2011 · 4
stjórnartaumum. Í forystu er Evo Morales forseti sem samið hefur
Boðorðin tíu til bjargar Móður Jörð. Erindi er komið til Sameinuðu
þjóðanna með fulltingi annarrar fátækrar þjóðar, Ekvador, að setja rétt-
indi Jarðar í alþjóðlegan sáttmála. Ég dáist að þessu göfuga framtaki en í
Boðorðunum tíu er réttilega staðhæft að annaðhvort veljum við félag við
Móður Jörð eða verðum barbarisma markaðar að bráð.
Þegar lífið er peningavætt er því dýrmætasta fórnað fyrst. Í náttúrunni
er það fegurðin, lífbreytileiki og landslag – það óborganlega. Fyrir hálfri
öld réðust menn fyrst á Þjórsárver. Hefði hernaðurinn sá unnist væru
auðæfi Íslands svipur hjá sjón en til allrar hamingju virðast fáir svo
heimskir í dag að krefjast frekari fórna í víðernum Þjórsárvera. Í stríði
taka menn landskika herskildi til að ná yfirráðum yfir heild. Á máli
vistfræði heitir þetta bútun eða fragmentation og er aðferð markaðs-
hyggjunnar við að sölsa náttúrugæði undir athafnalíf.
Með Blönduvirkjun, Þjórsár-Tungnaárvirkjunum og Kára hnjúka-
virkj un var einstök hálendisdásemd bútuð niður á altari málmbræðslu.
Og enn ætlum við að ganga sömu braut miðað við Rammaáætlun. Þar
liggur veikleiki hennar. Af ótal vondum dæmum tek ég eitt sem sýnir
hve skammt við erum komin í verndun auðæfa landslagsins og varðar
virkjun við Skrokköldu á Sprengisandi sem þar fær brautargengi. Gangi
hún eftir bútum við miðhálendi Íslands í tvennt – austur og vestur – þá
er komin greið leið fyrir raflínur frá norðri til suðurs um Sprengisand
og þá hyrfi stóra myndin af víðernum Íslands endanlega.
Hér er rétt að staldra við og spyrja: Þurfum við ekki að hugsa öðru-
vísi? Eða er sá tími kannski að renna upp að fórnirnar duga ekki og
við seljum landið sem okkur hefur verið trúað fyrir – fyrir denara eða
yuana? Er það virkilega svo að við ætlum að selja fósturjörðina – okkar
Móður Jörð? Ætlum við að kóróna skömmina með því að vera land-
sölumenn, selja frumburðarrétt allra Íslendinga, borinna og óborinna,
eftir að hafa stundað landeyðingu og auðlindagjafir?
Virkjun hjá Skrokköldu væri harmleikur en gæti fengið lagalegan
passa Alþingis Íslendinga rétt eins og Kárahnjúkavirkjun. Gleymum því
ekki að Alþingi á að vera sverð og skjöldur íslenskrar náttúru – en hefur
vanrækt varðstöðuna. Þess vegna höfum við slappa náttúruverndarlög-
gjöf og slappar lagagirðingar – þess vegna var mengandi iðnaði lofað
lágmarks mengunarvörnum í aðför stjórnvalda að náttúru Íslands og
almenningi.