Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 26
B e r g l j ó t S o f f í a K r i s t j á n s d ó t t i r
26 TMM 2011 · 4
yrkir bæði flokk og drápu sem Oddi man hluta úr er hann vaknar.
Dagfinnur gegnir hlutverki skáldsins, og reyndar líka sjáandans, svo vel
í atburðarásinni að hann fær systur konungs þegar hann biður hennar.
Odda má túlka sem nokkurs konar raunvísindaútgáfu af Aristótelesi
í útleggingu þeirra Young og Savers; hann er maður sem fæst við
einmanalegar stjörnuathuganir, ,sannindi‘, en dreymir um tíðindaríkt líf
þar sem hann er ekki bara sjálfur í hringiðu atburðanna heldur fellir þá
í frásagnarkvæði, miðlar m.ö.o. boðum í félagslegu samhengi, og finnur
sér á endanum traustan félagsskap, eiginkonu, sem er að sjálfsögðu
stöndug svo að hann geti notið þess að vera lítill „verkmaður“.
En hvað er um sögu Gyrðis að segja? Hún er bókstaflega samin sem
framhald þáttarins forna og lesendum er ekki aðeins vísað á hann með
heitinu heldur líka þegar atburðir eru settir niður nokkrum vetrum
seinna en Odda dreymir „sinn undarlega draum sem skráður er á
gömlum bókum“.10 Hann er enn staddur í Flatey en nú úti að huga að
stjörnum sem tindra á heiðskíru lofti að baki norðurljósum og tunglið
fullt. Sögumaður segir:
Þá gerist það að StjörnuOdda syfjar mjög í einni svipan og skiptir nú engum
togum að hann leggst á hjarnið og lýkur aftur augum. Hann dreymir þá að
honum þykir koma kló mikil úr norðvestri og hremma eyjuna og draga inn í
kolamyrkur.11
Eins og sjá má kemur í stað stórtíðinda framhaldssdraumsins, gamla og
æsilega, einn ógnvekjandi atburður sem getur af sér tíðindaleysi; logn
almyrkurs tekur við af iðandi lífi og hreyfingu.
Lesendum hlýtur að verða illa við þó ekki væri vegna annars en að
reynsla manna af draumum tengist sterkum geðshræringum eins og
ótta, reiði og angist sem lifa gjarna með þeim löngu eftir að þeir vakna.12
Að auki kann „klóin“ að hafa sérstök áhrif á þá af því að hún kallar
fram mynd af stóru dýri á lofti og vænghaf og stærð eru meðal þess sem
talið er vekja grunngeðshræringar með mönnum.13 Og þar eð Oddi
er bendivísunarmiðja, eða sú persóna sem er í forgrunni,14 í framan
greindu textabroti fara lesendur eflaust margir létt með að samsama sig
honum þegar hann vaknar „ónotalega“ af sínum draumi.15
Ég gef mér að ónotin hafi ekki fyrr gripið lesendur en menningar
bundnar ástæður – nánar tiltekið kynni af draumum í bókmenntum og
kannski líka veruleika – valdi því að þeir bíði þess flestir að draumurinn
komi fram. Áður en ljóst verður hvort eða hvernig hann rætist fylgjast
þeir þó með viðbrögðum Odda, kenndum og gerðum, og bregðast sjálfir
við. Sennilega gera þeir það oftar óvitandi en vitandi af því að drýgstur