Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 48
N j ö r ð u r P. N j a r ð v í k
48 TMM 2011 · 4
Eigum við kannski að taka undir með blinda manninum á Þingvöllum?
„Okkar glæpur er sá að vera ekki menn þó við heitum svo.“ Ef við
höfum ekki verið menn, þótt við heitum svo, er okkur satt að segja
engin vorkunn að verða menn. Okkur eru í reynd allir vegir færir, ef
við gerum okkur grein fyrir því að „fátækrahverfin eru innra með
okkur“ eins og sænska skáldið Tomas Tranströmer segir í ljóði. Þá
verðum við að gefa okkur tóm til að hugsa og horfa inn á við og játa
vanmátt okkar í neysluæðinu og marka okkur braut til framtíðar í stað
þægindafrekju andartaksins. Við eigum gott og víðlent landrými sem
mun nýtast okkur til allrar framtíðar, ef við hættum að eyðileggja það
fyrir hverfula stundarnýtingu sem mun bitna á komandi kynslóðum.
Við eigum nægt vatn, dýrmætasta efni sólkerfisins og næga orku – ef
við hættum að afhenda hana erlendum auðhringum fyrir gjafverð. Við
eigum sjálfstæða menningu og undursamlegt tungumál, sem geymir
meira en þúsund ára hugsun okkar, þrá og vonir. Og svo eigum við dýr
mætasta auð okkar í börnum okkar. Við megum ekki undir nokkrum
kringumstæðum bregðast við efnahagsvandræðum með því að þrengja
að menntun barna okkar.
Okkar vandamál er því í raun við sjálf. Og enginn ræður bót á
því nema við sjálf. Okkur er ekkert að vanbúnaði. Hættum að líta á
dauðasyndir sem dyggð. Látum af hroka, ágirnd, ofáti, munúðlífi og
öfund. Finnum aftur það sem við höfum týnt. Endurvekjum hinar fornu
dyggðir: visku, hófstillingu, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleika. Og
kannski umfram allt það réttlæti sem ekki reynist ranglæti svo að við
lærum af baráttu Jóns Hreggviðssonar. Hugsum aftur til þess vonardags
í regni þegar klukkan kallaði okkur aftur heim til sín og sló alskærum
ómi út yfir vatn og skóg.