Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 64
J ó n B a l d v i n H a n n i b a l s s o n
64 TMM 2011 · 4
það eitt að segja, að hún blífur sem slík: martröð Hayeks. Raunveruleik
inn er allur annar. Lýðræðið stendur djúpum rótum á Norðurlöndum.
Það hefur satt að segja aldrei verið meira sprelllifandi. Lýðræðisleg
skoðanaskipti og málefnaleg umræða er óvíða jafn beinskeytt og
aðgangshörð. Norrænu velferðarríkin hafa í reynd náð að sameina sterkt
lýðræði, almenn lífsgæði, öra nýsköpun, félagslegt öryggi og almenna
hagsæld. Engar þjóðir aðrar hafa náð jafngóðum árangri á jafnmörgum
sviðum. Frjálshyggjuleið Bandaríkjanna stendur þar langt að baki og
virðist nú vera á leið út í miklar ógöngur vegna hraðvaxandi ójöfnuðar
og skuldasöfnunar, sem ógnar í sívaxandi mæli lífskjörum millistétt
anna. Hörð fátækt undirstéttarinnar, sem löngum hefur verið afskipt
þar í landi, virðist einnig stefna í að versna með nýjustu niðurskurðar
hugmyndum óvina velferðarríkisins þar í landi.
Og hvað með frelsið? Um það gildir nokkurn veginn það sem Olof
Palme sagði í einni af sínum seinustu ræðum, skömmu áður en hann
var myrtur á götu úti í Stokkhólmi árið 1986:
Með því að tryggja tækifæri allra, án tillits til efnahags, stéttar eða stöðu, til
þess að afla sér menntunar og þroska hæfileika sína, erum við í reynd að færa
út landamæri frelsisins.
Þessi grein er unnin upp úr fyrirlestri, sem höfundur flutti á alþjóðlegu
málþingi stúdenta við Tækniháskólann í Ilmenau í Thüringen þann 14.
maí, 2011. Málþingið fjallaði um frelsið, einstaklinginn og samfélagið.