Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 66
Þ ó r a r i n n H j a r t a r s o n
66 TMM 2011 · 4
hendur kristnum herjum árið 1236 og með því hófst löng saga breytinga
á byggingunni. Nokkrar kapellur eru innan hennar og undarleg
dómkirkja rís hátt upp úr henni miðri. Samt er það moskan sem hefur
vinninginn. Breytingarnar á henni eru vissulega truflandi en birtust
mér samt sem aukadrættir í sterkum svip hennar sjálfrar.
Samskipti mára og kristinna
Í mannkynssögubókum okkar er menningarheimum kristinna og
múslima á miðöldum gjarnan lýst sem ósættanlegum andstæðum. En
samskipti hins máríska ríkis á Íberíuskaga við granna sína voru mikil,
a.m.k. með köflum. Konungar og furstar kristinna og múslima áttu oft
skattlönd og lén handan trúarbragðalínunnar, stórmenni giftu sig yfir
sömu línu, kristnir menntamenn sóttu lærdóm til Kordóvu o.s.frv. Hug
myndin um ósættanleika er mótuð af krossferðum og hafa ber í huga
að mesti blómatími máraríkisins var einmitt áður en krossferðirnar
hófust. Krossferðir hinnar kristnu Evrópu gegn múslimum stóðu tvær
aldir – tólftu og þrettándu öld – og hernað kristinna Spánverja fyrir
„endurheimt“ (reconquista) er eðlilegt að skoða sem hluta af krossferða
pólitíkinni.
Máraríkið stóð á Íberíuskaga í nærri átta aldir og slík ending var
alveg óvenjuleg á miðöldum og ber vott um innri styrk og samloðun.
Eitt merki um innri styrk var umburðarlyndi ríkisins í trúmálum. Þar
ríkti merkileg sátt milli þriggja trúarsamfélaga, íslam, kristindóms og
gyðingdóms. Hvert þeirra fékk að rækja trú sína án mikilla takmarkana,
og útkoman var frjótt samfélag í andlegum sem veraldlegum efnum.
Gyðingar tengdust márum reyndar meira en aðrir og tungumál þeirra
var yfirleitt arabíska. Umburðarlyndið í máraríkinu var ekki alltaf hið
sama. Mest var það meðan kalífatið stóð í Kordóvu, fyrir árið 1031, en
því fór eðlilega aftur eftir því sem hernaði kristinna fyrir „endurheimt“
óx ásmegin. Heildarmyndin af trúarbragðablöndunni innan ríkisins er
samt mynd af friðsamlegri sambúð. Slík sambúð gat hugsanlega orðið
fordæmisgefandi í Evrópu en allt fór það á annan veg eftir að máraríkið
féll (sjá t.d. María Rosa Menocal 2002, The Ornament of the World. How
Muslims, Jews and Christians Created a Culture of Tolerance in Medival
Spain).
Það var ekki fyrr en með lokum miðalda og upphafi nýaldar sem
hin kristna Evrópa, með Spán í broddi fylkingar, lét af öllu umburðar
lyndi í garð múslima. Nánar tiltekið var það árið 1492, árið sem síðasta
hérað máraríkisins, Granada, féll og árið sem Kólumbus sigldi vestur.