Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Side 68
Þ ó r a r i n n H j a r t a r s o n
68 TMM 2011 · 4
fjölmörgum byggingum á svæðum sem orðin voru kristin. „Mudéjar
stíll“ er ófullnægjandi hugtak af því þetta var ekki aðeins márískur stíll
heldur einnig márískt handverk. Kristnu höfðingjarnir, jafnvel prelátar
kirkjunnar, voru háðir márískum handverksmönnum af því engir aðrir
kunnu handverkið nógu vel.
Í Moskunni miklu sést þetta á þeim breytingum sem gerðar voru á
henni eftir að Kordóva féll, einkum í tveimur samliggjandi kapellum,
Capilla Real og Capilla de Villaviciosa, annarri frá 13. öld og hinni
frá þeirri 15. Súlur og bogar voru þá hækkuð, þakinu lyft og kristnu
skrauti komið fyrir. Arkítektar breytinganna sýndu samt hinu íslamska
guðshúsi fulla virðingu, löguðu sig fagmannlega að byggingarlist þess,
og skreytingin var í meginatriðum í mudéjarstíl. Kynþáttahyggja
og evrósentrismi voru enn óuppfundin, márísk menning naut enn
virðingar og kristnir grannar mára nutu áfram háþróaðs handverks
þeirra og lista.
Út úr sama húsi má svo lesa brotthvarf umburðarlyndisins. Háreist
dómkirkja í stíl endurreisnar og barrokks rís upp úr miðri moskunni,
íburðarmikil og glæst en í engu samræmi við þá byggingarlist sem fyrir
var. Eftir fall Kordóvu fyrir kristnum herjum árið 1236 hafði Moskan
mikla, eftir minni háttar breytingar, verið notuð sem kristilegt guðshús
í nærri þrjár aldir. En nokkru eftir 1500 var ákveðið að rífa hana og
byggja mikla dómkirkju í staðinn. Hafist var handa við niðurrifið. Áköf
andstaða bæjarbúa í Kordóvu varð þó til þess að áætlununum var breytt
og dómkirkjan í staðinn reist í henni miðri.
Menning máraríkisins var hluti af mestu hámenningu síns tíma með
miðsvæði sitt fyrir botni Miðjarðarhafs. Íslam yfirtók þar menningu
hellenismans og bar hana áfram. Gróflega spannaði máraríkið tíma sem
kenndur er við gullöld íslamskrar menningar, en hún er gjarnan sögð
vera frá miðri 8. öld og fram á miðja þá 13. Glæsileika hennar fór aftur
eftir fall Bagdad fyrir mongólum í lok 13. aldar og fall máraríkisins á
Spáni – og síðar með heimsvaldastefnu og heimsyfirráðum Evrópuríkja
sem þrengdu kosti allra annarra menningarsamfélaga á hnettinum.
Hugtakið „endurheimt“ Íberíuskagans er kristið hugtak. Múslim
arnir þar voru ekki ræningjar og ekki heldur gestir. Í fyrsta lagi var
landið orðið íslamskt talsvert áður en til dæmis Norðurlönd urðu
kristin. Í öðru lagi voru arabar og norðurafrískir berbar alltaf lítill
minnihluti íbúa í máraríkinu. Meirihlutinn var vissulega íslamstrúar
en af rómösku ætterni eins og Spánverjar nútímans. Það hefur oft gerst
í sögunni að auðug hámenningarríki féllu fyrir frumstæðum árásar
þjóðum (t.d. Mesópótamía nokkrum sinnum og Ítalía Rómaveldis). Í