Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Side 92
G a r ð a r B a l d v i n s s o n
92 TMM 2011 · 4
„Þetta er hræðilegt,“ sagði skipstjórinn.
„Já, og það hefur auðvitað enginn þeirra farið á námskeið um hjálp í
viðlögum,“ sagði Einar sem ekki hafði haft sig í frammi. „Nema Geiri,
hann fór í fyrra hjá Rauða krossinum.“
„Er alveg víst að hann hafi dottið?“ spurði Þórður. Hann var alveg
rólegur og reyndar óvenjuhægur.
„Heldurðu að hann hafi kannski stokkið?“ spurði vélstjórinn snöggur
upp á lagið eins og ráðist hefði verið á hann sjálfan.
„Hann skuldaði út um allt,“ sagði Reynir. „Hann vissi ekkert hvað
hann átti að gera í þessari skuldasúpu og hafði gríðarlegar áhyggjur
þegar ég hitti hann fyrir tveimur vikum.“
„Pétur bróðir hans sá hann víst í fallinu. Út um lúguna. Pétur stóð sig
víst eins og hetja. En var frekar hægur til að byrja með.“
„Kannski hann hafi tekið eftir því hvort hann stökk eða datt,“ sagði
Þórður. „Annars hef ég einu sinni séð mann falla svona af efra dekkinu,“
bætti hann við, „og hann hrapaði eins og í teiknimyndum, baðaði út
öllum öngum og horfði niður fyrir sig.“ Hann horfði fjarhuga á Reyni.
„Sá sem ég sá hélt líka á hundi í bandi eins og hann myndi bjarga
honum. Ég sá hann svolítið seinna í sjónum og þá stóð loftstrókurinn
upp af honum.“ Þórður horfði fjarhuga út í loftið.
„Náðuð þið honum inn aftur?“ spurði Ragnar.
„Já, já, hann bjargaðist alveg,“ sagði Þórður og var nú eiginlega geisl
andi. „Þetta var hann Óli Tótu, stýrimaður á Danska Pétri.“
„Þeir voru úti á sautjándanum og þá var brjálað veður,“ sagði Reynir.
„Maður hefði frekar búist við því að missa mann útbyrðis í þeim
ósköpum.“
„Það er náttúrlega svakaleg undiralda núna eftir þann storm, kannski
hún hafi truflað,“ sagði Þórður hugsi.
„Ég frétti að hann hefði skuldað bankanum þrjátíu milljónir og kaup
félaginu næstum annað eins og svo hefði hann skuldað Pétri og Páli
smáræði hér og þar,“ sagði Reynir uppfullur af þessari vitneskju. „Svo er
sagt að hann hafi átt í einhverjum kvennavandræðum,“ bætti hann við
og hallaði undir flatt. „Kannski ýmsar ástæður til að enda þetta.“
„Þetta er nú kannski ekki meira en margur annar,“ sagði vélstjórinn
og var næstum því hissa á þessu en ekki víst hvort það var uppljóstrunin
eða upplýsingarnar sem hann undraðist. „Engin ástæða til að kála sér.“
„Þeir töluðu nú ekki fallega um Geira, strákarnir á Danska Pétri,“
sagði Þórður. „Þeir sögðu að það hnigi ekki í honum blóðið.“
„Nú? Var hann einhver skaplurða?“ spurði Reynir.
„Nei, nei,“ sagði Þórður, „þeir sögðu hann svona latan.“