Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 96
96 TMM 2011 · 4
Kristín Einarsdóttir
Áramótaskaupið og aðrar
óspektir um áramót
Inngangur
Gamlárskvöldi eyða flestir Íslendingar með stórfjölskyldunni í hefð
bundinni áramótaveislu sem samanstendur af hátíðlegum kvöldverði,
flugeldasprengingum og áhorfi á áramótaskaup sjónvarpsins. Þarna eru
afar og ömmur, pabbar og mömmur, ásamt fjölda barna á ýmsum aldri.
Fullorðna fólkið spjallar, fær sér vínglas eða kaffi og gæðir sér á afgöng
unum af jólakonfektinu. Börnin hlaupa um húsið, með hurðasprengjur
og við og við heyrist hvellur þegar einhver í sakleysi sínu opnar dyr
þar sem slíkri sprengju hefur verið komið fyrir. Þegar klukkan nálgast
hálfellefu eykst spennan, skaupið er að byrja. Börn og fullorðnir setjast
fyrir framan sjónvarpið og þögn færist yfir húsið og nágrennið. Úti
fyrir hljóðna sprengingarnar sem hafa dunið allan daginn og dagana
áður. Einn gestanna gæti mögulega verið útlendingur, boðinn í mat
þetta kvöld en þótt vitað sé að hann geti ekki skilið nokkuð af því sem
fram fer á skjánum hvarflar ekki að neinum að sleppa skaupinu og sinna
gestinum. Hann verður að horfa eins og aðrir.
Fyrsta skaupið var flutt árið 1966, aðeins nokkrum mánuðum eftir að
sjónvarpið hóf göngu sína hér á landi (Fréttablaðið 2008, 30. desember).
Það hefur frá upphafi notið gífurlegra vinsælda og áhorfstölur slegið
öll met. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í viðtali í Fréttablaðinu 22.
febrúar 2007 um áhorf á áramótaskaupið:
Þær tölur eru með ólíkindum. Síðasta skaup mældist með 93,3 prósent í upp
safnað áhorf sem er aukning um tæpt prósent frá árinu áður. En árið 2002 fór
það upp í 95,5 prósent (Fréttablaðið 2007, 22. febrúar).