Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Síða 67
L á r v i ð a r s k á l d
TMM 2012 · 1 67
háttaði Hallgrímur og sofnaði skjótt, en ekki varð hann þess var, að frændi hans
færi úr fötum og svæfi, heldur sat hann við borð þar og samdi eitthvað eða orti.
Næsta dag hélt hann sama starfi fram. Og er á leið daginn, bað hann Hallgrím
að hverfa heim og skilja sig eptir, en lokað bréf fékk hann honum og bað hann
sjálfan færa það amtmanni á heimleiðinni. Síðan kvöddust þeir, og er Hall-
grímur kom að Möðruvöllum, spurði amtmaður um ferð Jónasar, færði Hall-
grímur honum þá kveðju hans og skilaði bréfinu. Hann heyrði þá að í bréfinu
var kvæðið „Gunnarshólmi“, og man Hallgrímur enn eptir rúm fimmtíu ár ýms
lofs- og undrunarorð, meðal annars sviplík og þau sem séra Páll sál. Jónsson í
Viðvík sagði mér frá, en þá var hann ritari Bjarna amtmanns. „Nú er mér bezt“
– eða „nú er mér mál að hætta að kveða“, hafa báðir sagt að hann hafi þá mælt,
– eins og enginn þarf að efa.17
Lokaorðin, sem og sú staðreynd að Matthíasi fannst ástæða til að
ítreka frásögn sína frá árinu áður, benda til að einhverjir hafi lýst yfir
efasemdum um sannleiksgildi hennar. Slíkar efasemdir koma jafnframt
fram í Kvæðafylgsnum þar sem Hannes Pétursson segir ótrúlegt að Jónas
hafi „á tæpum tveimur dægrum fullkveðið þvílíkt orðlistaverk sem
Gunnarshólma“ og sent það um hæl til Bjarna.18 Tekur Hannes dæmi af
annarri frásögn sem Matthías hafði eftir Hallgrími þar sem gamli mað-
urinn fór augljóslega rangt með staðreyndir.
Í ævisögu Jónasar Hallgrímssonar frá árinu 2001 tekur Páll Valsson
undir efasemdir Hannesar Péturssonar um ábyggileika Hallgríms. Hann
segir einnig ástæðu til að taka með fyrirvara þá sögu Hannesar Hafstein
að Bjarni hafi lagt hönd á öxl Jónasar árið 1841 og sagt: „Þegar ég dey,
þá verður þú eina þjóðskáldið okkar.“ Páll bendir á að þetta sumar hafi
kastast alvarlega í kekki með skáldunum og rifjar jafnframt upp einu
skrásettu ummælin sem til eru með hendi Bjarna um Jónas, úr bréfi frá
árinu 1837: „Orðfærið er gott í Fjölni en Jon. Hallgr. er hið drambsam-
asta dýr.“19 Þykir Páli að frásögn Hannesar Hafstein sé dæmi um það
hvernig „tíminn leggi sína mildandi hönd yfir samskipti tveggja skálda,
sem voru umdeild í lifanda lífi en dýrkuð og dáð eftir sinn dag. Þá hefst
helgimyndasköpunin.“20 Mér finnst ástæða til að hnykkja á þessum
orðum. Unnt er túlka lýsinguna á því þegar Bjarni leggur hönd sína á
öxl Jónasar sem týpólógíska mynd sem minnir á fresku Michelangelos
Sköpun Adams í Sixtínsku kapellunni í Róm þar sem fingur Drottins
og Adams eru við það að snertast. Nú orðið er auðvitað útilokað að
sanna að þeir Hallgrímur Tómasson og Hannes Hafstein hafi vísvitandi
farið með rangt mál en óneitanlega er það snilldarbragð í bókmennta-
sögulegu samhengi að láta Bjarni kanónísera Jónas tvívegis á árunum