Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 10
10 TMM 2017 · 1
Kristín Ómarsdóttir
Mér þykir mjög gaman
að vera barn
Viðtal við Sverri Norland rithöfund
Það gerðist svona: Á annan í jólum beið ég með vinkonu minni í sjötíu metra
langri biðröð og norpingi fyrir utan listasafn, við áttum ekki von á að komast
inn þegar Sverrir Norland gekk út af safninu, við heilsumst, þau kona hans
gáfu okkur aðgöngumiða sína. Fyrir löngu höfðum við skrifast á og ég rætt
við hann um viðtal. Á milli jóla og nýárs tók ég pólitíska ákvörðun, við hitt-
umst á öðrum degi nýs árs.
Sverrir Norland á fimm bækur að baki og önnur skáldsaga hans, Fyrir
allra augum, kom út í haust (2016) og vakti athygli. Í sögunni útskýrir hann
veröldina sem unga fólkið býr í á nettímum – hvaða veröld? líkt og bókin
spyr – þegar menn búa hver í sínum draumi í sameiginlegum hugarheimi
í órastærð og á við annað stjörnuhvolf, og samtímis í umheimi þar sem
fingurnir hitna ef eldurinn er heitur. Þetta gerir hann vel, smíðar litla veröld
í Reykjavík með ástar- og tilvistarsögu í, teflir persónum saman af þremur
kynslóðum – skýtur skotum að klaufaskap hinna eldri, gerir ekki minna
úr klaufaskap hinna yngri; verkið er varnarrit barna yngstu tíðarinnar,
tilfinninganna og mennskunnar. Hann hefur sjónarhornið, tækin og tólin til
að segja sögu úr nútímanum og ætti ekki að hlífa hinum eldri – þeir ruddu
brautina og geta notið þess að horfa á veröldina með nýrri augum en sínum
eigin og læra af þeim.
Sverrir er marghagur, teiknar, spilar á gítar og semur tónlist, en ég er viss
um að ástríðurnar gísli skáldskapinn og skáldskapurinn ástríðurnar og að
hann sé ekki bara sögumaður, einsog hann segist hafa komist að. Ég átti
erfitt með að velja úr ljóðunum hans en valdi þetta afþví hvað líkingin kom
mér á óvart: