Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Síða 16
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
16 TMM 2017 · 1
Hvernig barn varstu? Óþekkur, stilltur?
Nafnið Sverrir merkir óstýrilátur maður en náttúra fylgir ekki nafni
í mínu tilviki, allavega ekki enn. Jú, ég tók oft æðisköst og beit pabba í
handlegginn og svona, en almennt séð var ég frekar kyrrlátur með undan-
tekningum.
Varstu trúaður? Ertu trúaður?
Ég var trúaður sem barn, fór með bæn á hverju kvöldi þangað til eftir
fermingu en það var tilbúin bæn. Einhvers konar ýkt og dramatíseruð útgáfa
af henni er meira að segja í Kvíðasnillingunum, lögð Steinari Ólafsen í munn:
góði „guð“
blessaðu alla í heiminum
bæði menn og dýr
og láttu öllum líða vel
bæði mönnum og dýrum
og gerðu það að láta
fötlun lömun sjúkdóma stríð
allt þannig lagast
helst alveg hverfa
bæði hjá mönnum og dýrum
og vinsamlega sjáðu til þess að
a) mér batni af svæðisgarnakvefinu
b) ég verði listrænn snillingur
c) ég eignist umhyggjusama, þolinmóða kærustu takk
elsku góði „guð“
amen
og fyrirgefðu okkur Herbert
að við drekktum óvart brúnrottunni Halldóri Kiljan
og létum brúnrottuna Þórberg Þórðarson svelta í hel!
og fyrirgefðu! fyrirgefðu! fyrirgefðu! okkur Óskari að hafa
stolið klámblaðinu!
plís!
góði „guð“ amen (aftur!)
Ég er ekki trúaður í dag en stundum hugsa ég, eftir svona skrítið ár einsog
2016, að mig langi til að vera trúaður. Mér finnst nútíminn ganga svo
mikið út á að þurrka út andleg gildi tilverunnar, þurrka út hið djúpstæða
og hið eilífa. Ég skil gildi þess að vera trúaður en að sama skapi finnast mér
trúarkenningar og fyrirfram-pakkaðar hugmyndir, sem fólk er matað á eins
og 1944-örbylgjuréttum, hættulegar.
Ertu félagsvera, einfari?
Ég get verið mikið einn en ég þarf líka að vera reglulega í návist fólks –