Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Síða 22
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
22 TMM 2017 · 1
Önnur uppáhaldsbók: Fjallkirkjan í þýðingu HKL. Og ljóð, mikið af
ljóðum. Ég fæ svo mikla orku af ljóðalestri. Meðal uppáhaldsbókanna minna
eru ljóðaþýðingar Gyrðis Elíassonar, Tunglið braust inn í húsið og Listin að
vera einn eftir Shuntaru Tanikawa. Ég tæki líka ljóð eftir Tomas Tranströmer.
Í fullri hreinskilni myndi ég þó alltaf velja að hafa gítarinn minn með á
eyjuna frekar en nokkra bók.
Hvað varstu að gera í Síberíuhraðlestinni?
Við konan mín fórum sex sólarhringa ferðalag í gegnum Síberíu, frá
Moskvu til Vladivostok, fórum ekki út úr lestinni í sex sólarhringa og enginn
sturta, maður horfir bara útum gluggana, drekkur te úr samovarnum, fer
í tuttugu mínútur út og kaupir pönnukökur, blinis, af gömlum kerlingum
með skuplur, og einhvers konar súrkálsbrauð, svo situr maður inní lestinni,
les Tolstoy, talar við konuna sína og þá fáu sem kunna ensku eða frönsku,
horfir útum gluggann á slétturnar og hugsar: vá hvað heimurinn er stór og
hvað það er gott að slökkva á tölvupóstinum í heila viku. Þaðan fórum við
til Japan.
Hvað voruð þið að gera í Japan ef ég má spyrja?
Hjóla um Tókýó. Borða udon-núðlur. Skoða Naoshima-eyju og listaverkin
þar, meðal annars eftir vin okkar Walter de Maria, sem Cerise bæði ritstýrði
og þýddi bók um. Hann var í The Velvet Underground. Í Japan eru klósett-
seturnar upphitaðar.
Og vonandi auðvelt að fá landvistarleyfi. Sækirðu jafnt áhrif í útlenskar
bókmenntir og íslenskar?
Ég sæki áhrif hvert sem ég mögulega get og hugsa þá lítið um landamæri
eða skil milli listgreina eða annarra sviða tilverunnar. Og ef ég mætti
snöggvast uppfæra eyðieyjulistann, þá vildi ég gjarnan bjóða César Aira með
mér, argentískum höfundi. Mottóið hans, fuga hacia adelante, eða: flugið
fram á við, er nokkuð sem ég reyni að tileinka mér. Að uppgötva Roberto
Bolaño var mér einnig mikilvægt, ég las hann upp til agna og vil pakka 2666
niður fyrir eyðieyjudvölina. Milan Kundera mætti svo kannski líka koma
með. Hvað íslenska höfunda snertir – hmmm. Ég veit það ekki. Guðrún frá
Lundi? Ísland er náttúrlega hálfgerð eyðieyja. Á „spássíu Evrópu“ líkt og
Siggi Páls segir í nýju ljóðabókinni sinni.
Gerir þú greinarmun á amerískum, evrópskum, asískum, afrískum áhrifum,
áströlskum?
Ekki endilega. Mér er sama um landamæri, það er helst ég strandi á tján-
ingar mærum tungumála. Þetta þjóðernisblæti mannkyns finnst mér hálf
böggandi. Og mér finnst stundum ergilegt að þurfa alltaf að vera Íslend ingur.