Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 45
B a r n a l æ t i
TMM 2017 · 1 45
heyinu var sölnuð og hvít eins og einhver hefði hellt yfir hana flösku af klór.
Okkur tókst ekki alveg að fela sjónvarpið en við vorum orðin uppiskroppa
með hey svo að þetta varð að duga og við bisuðum við að rúlla hjólbörunum
í gegnum vesældarlega runnana við endann á stígnum. Beðin þar voru öll
úttröðkuð eftir krakka í ævintýraleit.
Við sáum enga fullorðna á leiðinni. Bara nokkra smákrakka sem voru að leika
sér í sandkassa á rólóinum. Þau störðu á okkur á meðan við fórum fram hjá.
Hausarnir snerust hægt eins og öryggismyndavélar. Ég gaf þeim horn auga
en hann virtist varla taka eftir þeim. Hann var niðursokkinn í að útskýra
hvernig maður gæti startað bíl án þess að vera með lykil með því að nudda
tveim vírum saman. Ég skildi ekki alveg hvernig það virkaði og á endanum
viðurkenndi hann að hafa ekki prufað það sjálfur. „Ekki enn,“ sagði hann.
Hann sagði mér líka frá því hvernig maður gat blandað saman matarsóda
og vatni í dollu, hrist dolluna og skilið eftir á tröppunum hjá óvinum svo að
lokið springi af og hvítt klístrið slettist yfir hurðina, og hvernig litlu plast-
hamrarnir sem hanga stundum við neyðarútganginn í strætó geta brotið
hvaða gler sem er í mola með einu léttu höggi. „Ef við værum með svoleiðis
núna þyrftum við ekki að burðast með þetta,“ sagði hann. Hann talaði sam-
fleytt alla leiðina móður og másandi á meðan hann bisaði við að ýta sjón-
varpinu. Ég bauðst til að taka við og ýta líka en hann sagði að hann gæti gert
það sjálfur jafnvel þótt ég sæi að hann var alveg að sligast.
Þegar við komum loks á leiðarenda reyndist þar vera þriggja hæða bíla-
stæðahús við hliðina á enn hærri skrifstofubyggingu. Allir voru farnir heim
og ég áttaði mig á að það var komið fram yfir kvöldmatartíma en gleymdi því
þó fljótt þegar hann benti mér á ástæðuna fyrir að hann hafði valið staðinn.
Það var girðing allt í kringum bílastæðahúsið og hlið við innganginn.
Lík lega læstu þeir því á næturnar en hliðið stóð galopið þegar okkur bar
að. Girðingin var úr járni og ansi stæðileg, með gaddavír efst. Girðingar-
staurarnir háir, hærri en girðingin sjálf, og toppurinn sorfinn niður og odd-
hvass. Þeir stóðu eins og spjót upp úr jörðinni hringinn í kringum bílastæða-
húsið svo að þetta leit út eins og kastali eða fangelsi. Það voru þessi spjót
sem hann hafði í huga. Hann vildi koma einu af þessum spjótum í gegnum
skjáinn með því að henda sjónvarpinu fram af efstu hæðinni.
Við þurftum bæði að ýta undir hjólbörurnar til að koma þeim upp alla
rampana. Það var enginn á svæðinu til að stöðva okkur eða spyrja hvað við
værum eiginlega að gera. Bílastæðahúsið var alveg tómt fyrir utan örfáa bíla
sem kúrðu í dimmustu skúmaskotunum. Þriðja hæðin var þaklaus með vegg
og handriði allan hringinn. Okkur tókst einhvern veginn að ná sjónvarpinu
upp úr hjólbörunum og koma því upp á vegginn. Það vóg salt á handriðinu á
milli okkar. Hann teygði hálsinn til að gægjast yfir brúnina og passa að það
væri spjót fyrir neðan okkur.