Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 48
B j ö r n H a l l d ó r s s o n
48 TMM 2017 · 1
í lausamöl undir hjólbörudekkinu. Hann leyfði þunganum að toga sig
áfram niður brekkuna áreynslulaust. Munnurinn á mér var eins og fullur
af bómull. Tungan festist við skrjáfþurran góminn þegar ég reyndi að tala.
„Af hverju varstu að meiða hana?“ spurði ég loks, án þess að líta aftur fyrir
mig. Hjólbörurnar mjökuðust áfram eins og undan eigin afli. Röddin á bak
við mig hljómaði eins og hugurinn væri nú þegar kominn í órafjarlægð frá
kettinum á brúnni.
„Ha? Kisuna? Ég var ekkert að reyna að meiða hana. Vildi bara sjá.“ Við
vorum komin niður brekkuna og hann byrjaði að auka hraðann. Hallaði sér
fram og hljóp. Ég fann fyrir heitum og hröðum andardrætti á hnakkanum
og eyrunum. Röddin var strax orðin móð og másandi. „Eins og með sjón-
varpið,“ sagði hann.
Við rifum varfærnislega upp stóra mosatorfu úti í hrauni og lögðum yfir
hvolfdar hjólbörurnar til að fela þær. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég
ætti að komast aftur heim en hann sagðist rata. Það var enn bjart þegar við
gengum til baka og ég var fegin að ég hafði gleymt úrinu mínu heima. Það
kom mér undan því að þurfa að ljúga að þeim um að hafa ekki vitað hvað
klukkan var orðin margt. Sólin var að setjast og skuggar okkar voru langir
og mjóir fyrir framan okkur á malbikinu og strukust öðru hverju saman. Við
þurftum að ganga lengi áður en ég byrjaði að kannast við mig. Ég var hálf
bangin við að einhver sæi okkur úti svona seint, örugglega löngu eftir úti-
vistartíma, en hann virtist ekkert vera að spá í því svo ég minntist ekki á það.
Í nýju götunni minni voru húsin föl og draugaleg í kvöldbirtunni. Hann
vildi fá að vita hvaða gluggi lægi að herberginu mínu og þegar ég benti
kinkaði hann kolli eins og hann hefði grunað það og sagði: „Ég get klifrað
upp þakrennurörið og bankað á glerið ef við þurfum að tala saman. Eins og
á næturnar. Er hann opnanlegur?“ Hann brosti með öllum tönnunum þegar
ég kinkaði kolli. „Ef þú vilt tala við mig settu þá logandi kerti í gluggann,
þá sé ég það þegar ég á leið hjá og get klifrað upp rörið og bankað, eða hent
steinvölum í glerið og þú klifrað niður.“ Hann var hæstánægður með þetta
ráð og sagði mér að hann hefði séð það í bíómynd um njósnara.
Við kvöddumst og ég veifaði við hurðina, skellti á eftir mér og hljóp beint
upp stigann og inn í herbergi. Ég heyrði í sjónvarpinu inni í stofu en fór ekki
að láta vita af mér. Þau myndu koma upp og tala við mig hvort eð er. Ég var
enn í skónum þegar ég klöngraðist yfir rúmið að glugganum. Langaði að
veifa honum svo hann sæi örugglega hvaða gluggi væri minn en þegar ég dró
frá var hann horfinn.
„Anna Dís!“ kallaði mamma á neðri hæðinni, „Varst þetta þú að koma
inn?“
Ég heyrði hratt fótatak hennar í stiganum og settist niður að bíða þess sem
koma skyldi. Hún bankaði ekki á hurðina áður en hún kom inn. Hún gerir