Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 56
56 TMM 2017 · 1
Hermann Stefánsson
Nokkrar ljóðaþýðingar
Rodolfo Häsler
ÚR DAGBÓK SKJÓSINS (2013)
Blaðsíða eitt: mánudagur. Hinn skýri skjór
Ég á skjó sem gaumgæfir allt.
Þarna er hann, þótt flóttalegur sé, kannski hending,
tvinnaspotti, skriða sem fellur
yfir grasþúfu í Ibarapuera.
Firrtur rósemd í hrjóstrugri sveit
birtist skjórinn, staðfastur á sínu afvegalausa flugi,
fer um háloftin og afnemur þrána þar sem hann svífur að,
gufar upp fyrir besta staðinn, dómgreind hans í laufskrúðinu.
Hann endurtekur sitt línulega hopp og nær meiri yfirferð,
leikur skjótt á sinn tamningamann.
Báðir fagna, orðatiltækið umleikis
ávallt á mörkum þess að glata tilefninu,
krafsandi í gæfa jörð, á votum laufum,
í hinu dýpsta umkomuleysi.
Blaðsíða tvö: þriðjudagur
Orðið skjór: ég les það í speglinum.
Flatur skurður á glerinu sem leggur fram hvað?
Myndin rennur út um falsið á kvikasilfrinu
og hverfur niður op neðanjarðarlestarinnar til Jabaquara.
Styttulaga skuggar bygginganna sverfa augasteininn,
hann uppgötvar ekkert, aðeins annarleika og verk.
Skrækur í fugli,
og dag einn, kannski í dag, ef til vill á morgun, þegar skýjað er,
lætur hann af ætlun sinni frammi fyrir takti heimsins.