Þjóðarbúskapurinn - 01.08.1983, Side 90
88
Tollur og sérstakt tímabundið vörugjald af vélum, tækjum, fylgihlutum og
viðgerðarefnum til nota í flugvélar eða í beinum tengslum við þær voru felld
niður (auglýsingar nr. 8 og 63/1982). Jafnframt var söluskattur felldur niður af
sömu vörum.
Alþingi samþykkti lög nr. 5/1982 um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna
ráðstafana í efnahagsmálum. Lögin, sem tóku gildi 1. mars, kveða meðal annars
á um:
(a) Tollafgreiðslugjald sem greiða skal vegna tollmeðferðar á innfluttum
vörum. Fyrir hverja tollafgreiðslu skal annað hvort greiða:
(1) 1% af tollverði innfluttrar vöru, eða
(2) tiltekna fjárhæð sem nemur krónum 200 nema tollverð sé undir 5.000
krónum, en þá skal greiða 50 krónur. Kveðið er á um að hækka megi
þessar fjárhæðir í samræmi við hækkun byggingarvísitölu.
(b) Lækkun launaskatts hjá fiskverkunar- og iðnfyrirtækjum úr 3,5% í 2,5%.
Jafnframt var gjalddögum launaskatts fjölgað úr fjórum í fimm á ári.
(c) Lækkun sérstaks tímabundins innflutningsgjalds á sælgæti og kex í áföngum
uns það er að fullu afnumið hinn 1. mars 1983.
Sérstök bindiskylda, sem felld var niður 24. desember 1981, var tekin upp að
nýju frá 5. febrúar og var ákveðin 3% af heildarinnlánum.
Hinn 22. febrúar hófst sala verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs 1. fl. 1982.
Bréfin voru að þessu sinni boðin fram með betri kjörum en áður, en vextir voru
hækkaðir úr 3,25 í 3,5%, lánstími styttur úr 22 árum í 20 ár og binditími styttur úr
5 árum í 3 ár.
Framfærsluvísitalan í febrúarbyrjun reyndist 144 stig og nam hækkunin 9,72%
á tímabilinu nóvember 1981 til febrúar 1982.
Niðurgreiðslur búvöru voru auknar um sem svarar 2,8% af framfærsluvísitölu.
Hinn 23. febrúar ákvað yfirnefnd Verðlagsráðs 7,5% almenna hækkun
fiskverðs fyrir tímabilið 1. mars til 31. maí.
í lok febrúar kvað Kjaradómur upp úrskurð um nýjan aðalkjarasamning milli
Bandalags háskólamanna og fjármálaráðherra fyrir tímabilið 1. mars 1982 til 29.
febrúar 1984. Ekki var kveðið á um almennar grunnkaupshækkanir, en
starfsaldurshækkanir urðu tíðari auk ýmissa annarra minni háttar breytinga.
Mars.
Verð áfengis og tóbaks var hækkað um 10%.
Sérstök bindiskylda var hækkuð úr 3% í 4%.
Verðbótahækkun launa fyrir tímabilið mars til maí samkvæmt ákvæðum laga
nr. 13/1979 reyndist 7,51% og hækkuðu öll laun sem því nam.
Niðurgreiðslur búvöru voru auknar um sem svarar 0.4% af framfærsluvísitölu.
Afurðaverð til bænda var hækkað um 9,16%.