Milli mála - 2020, Page 14
14 Milli mála 12/2020
ÆVINTÝRAEYJURNAR JAPAN OG ÍSLAND: UM JAPANSDVÖL NONNA, 1937–1938
10.33112/millimala.12.1
ÚTLENDINGUR OG ÓVITI
menntastofnun landsins, Keisaralega háskólanum í Tókýó; hann
kom fram í útvarpi og þrjár af bókum hans komu út á japönsku um
þetta leyti. Honum var sómi sýndur af bæði japönsku keisarafjöl-
skyldunni og forsætisráðherra landsins; hann var aufúsugestur hjá
sendiherrum, rithöfundum og ýmsu menntafólki og hundruð barna
flykktust oft til að hlýða á fyrirlestra hans og upplestra.3 Að auki var
tíð og umfangsmikil umfjöllun um Jón og Nonnabækur hans í jap-
önskum dagblöðum og tímaritum meðan á dvölinni stóð, en mark-
miðið með ritun þessarar greinar er einmitt að kynna og greina þá
fjölbreyttu umfjöllun. Greinarnar eru langflestar á japönsku og ekki
hefur verið fjallað um efni þeirra áður, hvorki á Íslandi né í Japan, að
örfáum greinum undanskildum.
Sagnfræðingurinn Gunnar F. Guðmundsson hefur ritað ítarlega
ævisögu Jóns (2012) þar sem Japansdvölinni eru gerð góð skil.
Bókin byggist á umfangsmikilli rannsóknarvinnu á bæði íslenskum
og erlendum frum- og eftirheimildum, en þó einungis að litlu leyti
japönskum. Markmiðið með þessari grein er að varpa ljósi á Japans-
dvöl Jóns á grundvelli rannsóknar á japönskum heimildum frá þeim
tíma sem Jón dvaldist í Japan. Leitast verður við að svara hvar og
með hvaða hætti fjallað var um rithöfundinn og verk hans í jap-
önskum dagblöðum og tímaritum. Til grundvallar liggja heimildir,
sem greinarhöfundur hefur aflað í japönskum skjalasöfnum og
gagnagrunnum, ásamt japönskum heimildum á Nonnasafni Lands-
bókasafns. Með því að rannsaka þessar heimildir bætist nýtt sjónar-
horn við fyrri rannsóknir á Japansdvöl Jóns. Jafnframt verður lögð
áhersla á að varpa ljósi á þær þjóðfélags- og trúarhræringar sem
ruddu sér til rúms í Japan á fyrri hluta síðustu aldar og hafa vafalítið
haft áhrif á þær viðtökur sem höfundurinn og verk hans fengu í
Japan. Greinin er þannig byggð upp að hún hefst á stuttum inn-
gangskafla, þar sem rætt er um heimildir um viðfangsefnið og fyrri
skrif um Japansdvöl Jóns. Að öðru leyti skiptist greinin í tvo
meginhluta. Í fyrri hlutanum er fjallað um stöðu Japans í alþjóð-
legu samhengi á þeim árum sem Jón kemur til Japans, sem og stöðu
trúarbragða og Sophia-háskólans á fjórða áratugi síðustu aldar. Í
seinni hlutanum er fjallað um þá mynd sem japanskar heimildir
3 Gunnar F. Guðmundsson, Pater Jón Sveinsson: Nonni, bls. 385–400.