Milli mála - 2020, Page 16
16 Milli mála 12/2020
ÆVINTÝRAEYJURNAR JAPAN OG ÍSLAND: UM JAPANSDVÖL NONNA, 1937–1938
10.33112/millimala.12.1
töl við eldri Japani sem hlýddu á Jón sem börn, leitað að efni um
Jón á skjalasöfnum ýmissa skóla sem Jón heimsótti og safnað
umfjöllun um höfundinn í Japan.6 Aðeins lítill hluti af efninu er þó
með í sjálfri sýningunni þannig að hún bætir litlu við rannsókn
Gunnars F. Guðmundssonar hvað upplýsingar varðar. Sýningin
hefur þó mikið gildi í japönsku samhengi þar sem nafn Nonna var
við það að falla í gleymsku þegar Watanabe hóf kynningarátak sitt.7
Að lokum má nefna að greinarhöfundur birti yfirlitsgreinar um
samskiptasögu Íslands og Japans í vor- og hausthefti Skírnis árið
2017 og í fyrri greininni sem fjallar um samskipti landanna fyrir
seinni heimsstyrjöld er vikið stuttlega að Japansdvöl Jóns.8 Jafn-
framt ber að nefna bókina Nonni og Nonnahús (1993) eftir Jón
Hjaltason, en mikið af myndum úr Japansferðinni prýða bókina.9
Með þessari grein gefst tækifæri til að fara nánar í saumana á
Japansdvölinni, en hin mikla fjölmiðlaumfjöllun um höfundinn þar
í landi gefur vísbendingar um stöðu Jóns og Nonnabókanna í
Japan; hvaða mynd var dregin upp af Jóni; hver markhópurinn var
fyrir Nonnabækurnar og hverju Jón kaus sjálfur að koma á fram-
færi. Við rannsóknina hefur greinarhöfundur leitað fanga víða, m.a.
í handritadeild aðalbókasafns Sophia-háskólans, St. Miki bóka-
safninu í Tókýó, sem rekið er af Jesúítareglunni, rafrænum leitar-
grunnum japanska landsbókasafnsins (j. Kokkai Toshokan) og
Nonnasafni Landsbóksafns Íslands. Til grundvallar rannsókninni
liggja u.þ.b. 70 japanskar blaða- og tímaritsgreinar10 en þó er ekki
hægt að útiloka að umfjöllun um Jón Sveinsson hafi birst víðar.
6 Viðtal greinarhöfundar við Watanabe í Tókýó, maí 2018.
7 Málþing var haldið í tilefni af opnun sýningarinnar og Watanabe hélt fjölda erinda um Nonna í
kjölfar hennar og endurútgáfu Nonnabókarinnar. Margir eldri Japanir muna enn eftir Nonna og
Nonnabókunum að sögn Watanabe. (Skv. viðtali greinarhöfundar við Watanabe vorið 2018.)
Mögulegt er að hluti af rannsóknarvinnu Watanabe sem hér er nefnd hafi farið fram eftir opnun
sýningarinnar.
8 Kristín Ingvarsdóttir, „„Frá Sóleyjum“: Upphaf samskipta Íslendinga og Japana 1904–1942“, sjá
sérstaklega bls. 91–100, sem fjalla um Japansdvöl Jóns og íslenska trúboða í Japan fyrir seinni
heimsstyrjöld.
9 Sjá sér í lagi myndaröð með skýringartextum á bls. 57–68.
10 Greinarnar birtust í Japan í tengslum við dvöl Jóns í landinu á árunum 1937–1938. Greinarnar
eru almennt ekki nefndar í heimildalista nema að í þær sé vísað beint.