Milli mála - 2020, Page 19
Milli mála 12/2020 19
KRISTÍN INGVARSDÓTTIR
10.33112/millimala.12.1
þenslustefnu Japana í Kína, hvers markmið var m.a. að komast yfir
nýjar jarðir og ræktarland fyrir ört vaxandi íbúafjölda í Japan, og í
fjölmiðlum bárust tíðar fregnir af glæstum sigrum á meginlandinu.
Dagblöðin áttu stóran þátt í að draga upp hvítþvegna mynd af hern-
aðarsigrum Japans í Kína, en þess ber að geta að Japan varð snemma
öflugt fjölmiðlaveldi með áhrifamikil dagblöð og prentmiðla. Al-
menningur í Japan var sigurreifur og í því andrúmslofti sem ríkti var
ekkert umburðarlyndi fyrir gagnrýni á japanska herinn. Það er við
þessar aðstæður sem Jón Sveinsson kom til Japans í mars árið 1937
og í ævisögu hans kemur glöggt fram hvernig hann hreifst með
sigurgleði Japana. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að gestur í
landinu hafi hrifist með á sama hátt og Japanir sjálfir.
3. Ríkisrekinn shintóismi og staða
„innfluttra“ trúarbragða
Líkt og fram kemur að ofan voru miklar sviptingar í japönsku sam-
félagi á fjórða áratug síðustu aldar og áhrifin á trúarstarf í landinu
voru einnig gríðarleg. En til þess að geta áttað okkur á stöðu krist-
inna manna í Japan á þeim tíma sem Nonni dvaldi í Japan þurfum
við að hverfa nokkra áratugi aftur í tímann og skoða stöðu trúar-
bragðanna í sögulegu samhengi. Árið 1868 markar upphaf Meiji-
endurreisnarinnar (e. Meiji Restoration), sem var umfangsmikið þjóðar-
átak til að færa stjórn landsins í hendur keisarans, varpa japönsku
samfélagi inn í nútímann og koma Japan á kortið sem jafningja
Vesturveldanna. Japan hafði áður verið lénsveldi og Japanir höfðu í
gegnum aldirnar fyrst og fremst kennt sig við sitt lén eða nánustu
heimkynni, en nú þurfti að byggja upp þjóðernisvitund þeirra sem
Japana. Á örfáum árum tókst Japönum að tryggja sig í sessi sem
nútímaríki með her og almenna herskyldu, þjóðfána, þjóðsöng,
stjórnarskrá, þjóðþing og lýðræðislega kjörna ríkisstjórn. Og ekki leið
á löngu áður en Japanir færðu út kvíarnar með nýlendum líkt og
fram hefur komið. Sú stórfellda endurskoðun á öllum samfélags-
legum þáttum sem átti sér stað í Meiji-endurreisninni markaði einn-
ig nýja stefnu fyrir trúarbrögð í landinu og Meiji-stjórnarskráin, sem
tók gildi árið 1889, tryggði þegnunum trúfrelsi, en þó með nokkrum