Milli mála - 2020, Page 23
Milli mála 12/2020 23
KRISTÍN INGVARSDÓTTIR
10.33112/millimala.12.1
rithöfundur. Undir lok ferilsins átti hann einnig því láni að fagna að
komast í heimsreisu á vegum Jesúítareglunnar, sem tók heil tvö ár
með langri dvöl í bæði Bandaríkjunum og Japan. Ekki er alveg ljóst
hvernig það atvikaðist að Jón hélt til Asíu en hitt er ljóst að hann
hafði alltaf langað til að komast til Japans og það virðist hafa hentað
Jesúítareglunni vel að slá tvær flugur í einu höggi með því að kynna
hinn heimsfræga rithöfund og verk hans, og styrkja starfsemi trú-
bræðranna í leiðinni.25 Þótt starfsemi jesúítanna væri umfangsmikil
áttu þeir þó víða í vök að verjast um þessar mundir. Lýðræðissinnar
á Spáni höfðu t.a.m. gert allar eignir Jesúítareglunnar upptækar þar
í landi örfáum árum áður og þróunin í Þýskalandi nasismans olli
einnig áhyggjum. Jón vonaðist til að málin myndu leysast á farsælan
hátt en að „óbreyttu vildi hann að Jesúítarnir hefðu hægt um sig og
ögruðu ekki stjórnvöldum. Hann fylgdi að því leyti stefnu æðsta
manns reglunnar.“26
Jón kom til Japans siglandi frá Bandaríkjunum og gekk á land í
Yokohoma þann 18. mars 1937. Gestgjafar hans og trúbræður í
Jesúítareglunni við Sophia-háskólann í Tókýó tóku fagnandi á móti
honum og þar upphófst hið mikla ævintýri sem Japansdvölin var.
Bókin Nonni í Japan kom út að Jóni látnum árið 1956 en verkið er
að hluta til skáldskapur þannig að hér er ævisaga Nonna eftir
Gunnar F. Guðmundsson fyrst og fremst höfð til hliðsjónar varðandi
helstu staðreyndir ferðarinnar, enda byggist ævisagan á dagbókum
og bréfasafni Jóns.
Sophia-háskólinn er nú einn af þekktustu einkaháskólum Japans
með u.þ.b. 11 þúsund nemendur. Hann stendur miðsvæðis í Tókýó,
á sama stað og þegar Jón dvaldist við háskólann. Mikil breyting hefur
orðið á stærð og ásýnd háskólalóðarinnar en byggingin þar sem ætlað
er að Jón hafi búið stendur enn.27 Byggingin er eftir tékkneska arki-
tektinn Jan Letzel:28 hún er hvít, stílhrein og tignarleg og stendur í
elsta kjarna háskólasvæðisins, ásamt gamla menningarhúsinu Kultur-
heim og gömlum japönskum garði frá Meiji-tímabilinu. Nokkrir
25 Sama heimild. Sjá nánar um tildrög ferðarinnar, bls. 366–368.
26 Sama heimild, bls. 386.
27 Viðtal greinarhöfundar við fulltrúa Jesúíta við Sophia-háskólann, 2018 og 2019.
28 Letzel teiknaði einnig eina þekktustu byggingu Japans, sem nú er þekkt sem byggingarrústin
„Genbaku Domu“ eða „Atomic Dome“, sbr. „The Launching of a Small Residence Hall …“, bls. 4.